Fara í efni
Fréttir

Norlandair hefur flug til Bíldudals og Gjögurs

Ein véla Norlandair, de-Havilland DHC-6 Twin Otter, á Akureyrarflugvelli. Ljósmynd: Skapti Hallgríms…
Ein véla Norlandair, de-Havilland DHC-6 Twin Otter, á Akureyrarflugvelli. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Norlandair hefur áætlunarflug frá Reykjavík til Bíldudals og Gjögurs nú um miðjan mánuðinn. Félagið hefur skrifað undir samning þar að lútandi við Vegagerðina í kjölfar útboðs sem fram fór fyrr á árinu.

Farnar verða sex ferðir vikulega milli Reykjavíkur og Bíldudals og tvær til Gjögurs. Norlandair vinnur nú að því að kom upp útibúi í Reykjavík vegna þessara verkefna.

Tilboð Norlandair í flugið til Bíldudals og Gjögurs hljóðaði upp á 612 milljónir króna á ári en kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar var 726 milljónir. Tvö önnur félög buðu í verkefnin, Ernir og Flugfélag Austurlands.

Framlengdi samning við Grænlendinga

Þá hefur Norlandair nýlega samið á ný við grænlensk stjórvöld um áætlunarflug á milli Íslands og Scoresbysunds við austurströnd Grænlands. Félagið hefur flogið þangað um árabil en samningurinn var framlengdur um sex ár, með möguleika á fjögurra ára framlengingu að þeim tíma liðnum. Flogið verður tvisvar í viku frá Íslandi, í annað skiptið frá Reykjavík, hitt frá Akureyri.

„Þetta eru góðir samningar sem styrkja reksturinn,“ segir Friðrik Adolfsson, framkvæmdastjóri Norlandair. „Við ætluðum að vera búnir að leigja okkur vél en vegna Covid urðum við að bíða með það. Faraldurinn hefur mikil áhrif á okkur eins og alla aðra. Þegar rofar til leigjum við vél eða kaupum, en við erum ekki búnir að ákveða hvernig vél það verður.“

Um þessar mundir sér Norlandair um áætlunarflug á milli Scoresbysunds og Kulusuk á vegum grænlenskra stjórnvalda og svo verður áfram. Þá flytur félagið frakt á milli Íslands og Grænlands, mat og póst, en ekki er leyfilegt að flytja farþega til Grænlands eins og sakir standa vegna Covid en fljúga má með farþega frá Grænlandi til Íslands.

Uppfylla allar kröfur

Vegagerðinni þótti ástæða til að senda frá sér yfirlýsingu í vikunni, í kjölfar frétta þess efnis að óeðlilega hefði verið staðið að verki við útboði á flugi til Hafnar, Bíldudals og Gjögurs og að vélar Norlandair uppfylltu ekki kröfur sem gerðar voru í samningi. Vísar Vegagerðin því á bug. Í yfirlýsingunni segir meðal annars: 

„Flugvélar sem Norlandair ehf. býður fram til verksins uppfylla allar kröfur sem gerðar voru í útboðsgögnum, þar með taldar kröfur um jafnþrýstibúnað, burðargetu og farþegafjölda. Vélarnar eru að fullu samanburðarhæfar við þá vél sem fyrri rekstraraðili hefur notað sl. ár.

Samkvæmt upplýsingum frá Norlandair ehf. þá hyggst flugfélagið í framhaldinu aðlaga flugáætlun sína að þörfum íbúa og fyrirtækja fyrir vestan og taka tillit til birtuskilyrða á flugvellinum á Bíldudal.

Norlandair ehf. er í samstarfi við Air Iceland Connect með aðstöðu og farmiðasölu í Reykjavík og nýta bókunarvél félagsins við farmiðasölu.

Norlandair ehf. sinnir sambærilegu verkefni fyrir Vegagerðina með flugi til Grímseyjar, Þórshafnar, auk þess að sjá um áætlunarflug á milli Akureyrar og Nerlerit Inaat á Grænlandi.“