Fara í efni
Fréttir

Norðurorka hlýtur verðlaun Terra

Eyþór Björnsson, forstjóra Norðurorku, til vinstri og Helgi Pálsson rekstrarstjóri Terra á Norðurlandi.

Norðurorka hlýtur Umhverfisverðlaun Terra á landsbyggðinni árið 2023. Þetta kemur fram á vef Terra, fyrirtækis sem „hefur starfað við flokkun og söfnun endurvinnslu efna frá árinu 1984 og vinnur með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum í endurvinnslu og umhverfisvænni úrgangsstjórnun með áherslu á að koma öllum þeim efnum sem falla til í viðeigandi farveg og aftur inn í hringrásarhagkerfið,“ eins og segir á heimasíðu þess.

„Norðurorka hefur sett fordæmi fyrir því hversu vel má flokka allt sem til fellur hjá stóru fyrirtæki. Hlutfall sem er urðað eða sent í brennslu er í algjöru lágmarki. Það samræmist stefnu Terra um að skilja ekkert eftir gríðarlega vel,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir að þegar rýnd voru gögn varðandi úrgangstölur og flokka frá viðskiptavinum Terra til að finna vinngshafa árlegra umhverfisverðlauna fyrirtækisins hafi menn áttað sig á því að þörf væri á að tilnefna einnig vinningshafa af landsbyggðinni.

„Það eru ansi mörg fyrirtæki sem eru í viðskiptum hjá okkur búin að bæta sig mikið á milli ára í flokkun sem skilar hreinni straumum og hærra hlutfalli heildarúrgangs sem fer í endurvinnslu. Norðurorka hefur tileinkað sér þær nýjungar sem Terra býður upp á, hefur verið reiðubúin að prófa nýjar lausnir og gefið sitt álit á virkni þeirra.“

 

Frá vinstri: Helgi Pálsson, rekstrarstjóri Terra á Norðurlandi, Jóhann I. Kristjánsson starfsmaður á lager Norðurorku, Eyþór Björnsson forstjóri, Einar Ingi Hermannsson og Ólafur Sveinn Traustason, starfsmenn á lager, og Kristbjörn Viðar Baldursson, sölu- og þjónustustjóri Terra á Norðurlandi.