Fara í efni
Fréttir

Næg verkefni fyrir nýjan öflugan götusóp

Götusópurinn afhentur. Friðrik Ingi Friðriksson, forstjóri Aflvéla, til vinstri, og Andri Teitsson, …
Götusópurinn afhentur. Friðrik Ingi Friðriksson, forstjóri Aflvéla, til vinstri, og Andri Teitsson, formaður Umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar.

Nýr og afkastamikill götusópur í eigu bæjarins hefur verið tekinn í notkun. Sópnum er ætlað að vinna gegn svifryksmengun á Akureyri.

Götusópurinn, sem er af gerðinni Schmidt 660, er fyrsta flokks tæki og ákaflega vel búinn, skv. upplýsingum frá bænum. „Hann er með góðum tromlukústi, sjö rúmmetra safnkassa og getur tekið vatn inn á sig. Hliðarsópur er stillanlegur og getur sópað alveg upp að kanti sem er mikill kostur. Þá er sogkraftur tækisins óvenjumikill,“ segir í frétt á vef bæjarins.

„Sópurinn er á metanbíl í samræmi við umhverfis- og samgöngustefnu bæjarins. Með þessu tæki er hægt að hreinsa göturnar á skilvirkan og vandaðan hátt og stuðla þannig að fallegra umhverfi og hreinna lofti.“

Fjárfestingin er liður í aðgerðum Akureyrarbæjar til að stemma stigu við svifryksmengun sem mælist reglulega of mikil. „Rík áhersla er lögð á þetta verkefni um þessar mundir og er meðal annars unnið að greiningu á efnasamsetningu og uppruna svifryks á Akureyri.

Vonir standa til að með samhentu átaki bæjarins við að hreinsa betur göturnar og íbúa við að draga úr bílaumferð og notkun nagladekkja megi ná góðum árangri í baráttunni við svifrykið.“

Götusópurinn, sem boðinn var út síðasta vor og keyptur af fyrirtækinu Aflvélum fyrir 40 milljónir króna, kom til landsins á dögunum og verður í mikilli notkun á næstunni. „Vorverkin eru enda að hefjast og einn liður í því er að hreinsa bæinn og koma honum í sumarbúninginn,“ segir á vef Akureyrarbæjar.