Fara í efni
Fréttir

Myglan á SAk: hluti skrifstofu flyst út í bæ

Sjúkrahúsið á Akureyri. Mynd: Þorgeir Baldursson

Vinna við að færa til starfsemi rannsóknardeildar Sjúkrahússins á Akureyri er nú á fullu, en meðal annars verður hluti skrifstofustarfsfólks og framkvæmdastjórnar flutt tímabundið í leiguhúsnæði við Glerárgötu. Eftir að mygla komst upp í húsnæði rannsóknardeildarinnar, og í ljós kom að umfangið var töluvert meira en leit út fyrir í fyrstu, segir Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk að ekkert annað hafi komið til greina en að færa starfsemina til á meðan myglan verður hreinsuð.

„Rannsóknardeildin er að færast upp á aðra hæð, þar sem nú er skrifstofugangur,“ segir Hildigunnur við blaðamann Akureyri.net. Þetta er gríðarleg vinna. Þegar færa þarf nokkur hundruð fermetra rými, þá þarf náttúrlega að færa aðra starfsemi til að rýma fyrir því. Auðvitað vildum við geta leyst þetta innanhúss, en það var því miður ekki hægt. Öll bráðaþjónusta verður að sjálfsögðu ekki færð neitt.“ 

Starfsfólk fann fyrir einkennum

„Það voru nokkrir starfsmenn farnir að finna fyrir einkennum, þannig kemst myglan upp í vetur,“ segir Hildigunnur. „Við hlustuðum að sjálfsögðu á þau og tókum sýni. Í fyrstu var talið að myglan væri einungis í útveggjum, en svo kom nýlega í ljós að myglan var á fleiri stöðum, sem varð til þess að við fórum í þá vinnu að færa starfsemina.“ Rannsóknardeild SAk liggur þó ekki niðri, Hildigunnur segir að starfseminni sé haldið við og ef þarf verður leitað aðstoðar Landsspítala.  

Nýbygging Sjúkrahússins er í undirbúningi, en reiknað er með að framkvæmdum verði lokið árið 2028. „Við búum við þröngan kost fyrir, þangað til nýbyggingin rís, þannig að þessi staða er ekki að hjálpa til,“ segir Hildigunnur. „Við reiknum með að klára tilfærslu starfseminnar í lok sumars, en þetta reynir náttúrulega á alla.“

Taka sýni á fleiri stöðum

Aðspurð um hvort að hún óttist að finna myglu á fleiri stöðum í húsakynnum sjúkrahússins, segir Hildigunnur að þau séu opin fyrir öllu. „Við erum með ráðgjafa í verkefninu, en núna snýst vinnan aðallega um rannsóknardeildina. En við erum alveg að taka fleiri sýni. Við viljum gera þetta vel.“ 

Hér má lesa umfjöllun Akureyri.net um nýbygginguna.