Fara í efni
Fréttir

Mygla á HSN – „Eldgamalt hús og óhæft“

Heilsugæslustöðin á Akureyri er í Amaro-húsinu svokallaða í miðbænum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Mygla hefur greinst í húsnæði Heilsugæslunnar á Akureyri. Nokkrir starfsmenn segjast hafa fundið fyrir einkennum sem rekja megi til myglunnar og forstjórinn segir að þjónusta við bæjarbúa gæti raskast meðan á viðgerð stendur. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, segir að fyrstu niðurstöður mælinga verkfræðistofunnar EFLU bendi til þess að mygla sé í nokkrum rýmum.

Óhæft húsnæði í langan tíma

Húsnæði HSN á Akureyri hefur lengi þótt henta illa fyrir starfsemina auk þess sem aðkoman er afleit. Jón Helgi sagði á vef Vikublaðsins á þriðjudag að ákveðið hefði verið að mæla loftgæði vegna kvartana starfsfólk og ástandið kæmi honum ekki á óvart. „Þetta er eldgamalt hús og er búið að vera óhæft undir þessa starfsemi í 15 ár,“ sagði forstjórinn.

RÚV hefur eftir Jóni í dag að hugsanlega þurfi að flytja hluta af starfseminni annað í bæinn tímabundið „tímabundið, til að losa um og gera möguleika á að grípa til aðgerða. Þannig við erum bara að kynna í dag fyrir starfsfólki stöðuna og munum svo fara í meiri mælingar á húsinu til að fullvissa okkur um að þau rými í húsinu sem við erum þó að vinna í séu í lagi.“

Smellið hér til að lesa frétt RÚV og hér til að lesa frétt Vikublaðsins.

Heilsugæslan flytur úr húsinu í miðbænum innan nokkurra missera og eftir verður starfsemin á tveimur stöðum í bænum. Verið er að innrétta heilsugæslu í stórum hluta verslunarmiðstöðvarinnar Sunnuhlíðar í Glerárhverfi og stefna að því að opna hana í lok þessa árs. Þá verður ný heilsugæsla byggð frá grunni við Þingvallastræti og ráðgert að starfsemi hefjast þar síðla árs 2025.