Fara í efni
Fréttir

Milljón frá Oddfellow og búnaður frá Hollvinum

Helga Björg Jónasdóttir frá Oddfellowstúkunni Laufeyju, Þórdís Rósa Sigurðardóttir verkefnastjóri heimahlynningar og Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk.

Oddfellowstúkan Laufey nr. 16 færði Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) og Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) ein milljón króna að gjöf á dögunum. Féð á að nota til búnaðarkaupa í hús sem minningar- og styrktarsjóður heimahlynningar afhenti stofnununum fyrir skömmu.

Hollvinir SAk hafa einnig gefið ýmis heimilistæki bæði stór og smá í húsnæðið. „Það er afar mikilvægt að geta búið húsnæðið vel bæði til að auðvelda þeim sem þar dvelja og ekki síður fyrir starfsfólk heimahlynningar,“ segir á vef SAk.

„Nýverið afhenti minningar- og styrktarsjóður heimahlynningar húsnæði í Götu sólarinnar við Kjarnaskóg. Húsnæðið er ætlað fyrir einstaklinga sem af einhverjum ástæðum geta ekki dvalið heima og þurfa líknarþjónustu utan sjúkrahúss og þurfa umönnun heimahlynningar,“ segir einnig á vef SAk. Sjúkrahúsið og HSN munu reka húsnæðið í sameiningu. Stofnanirnar tóku formlega við húsnæðinu þann 15. september.