Fara í efni
Fréttir

„Lokapróf gamaldags kúgunartæki feðraveldis embættismanna“

Jón Már Héðinsson skólameistari Menntaskólans á Akureyri við brautskráninguna í morgun. Ljósmynd: Sk…
Jón Már Héðinsson skólameistari Menntaskólans á Akureyri við brautskráninguna í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Jón Már Héðinsson, sem nú lætur af starfi skólameistara Menntaskólans á Akureyri, segir hugmyndafræði lokaprófa ekki lengur ráðandi í skólanum, enda væru lokapróf gamaldags kúgunartæki feðraveldis embættismanna og hefðu aldrei haft neitt með nám og menntun að gera heldur verið þægilegt guðlegt tæki til að flokka fólk og útdeila gæðum!

„Það þarf ekki að fara langt aftur í tíma til að rifja upp að þetta tæki sendi alla með lesörðugleika burt, alla með of ríka athygli burt, alla sem áttu erfitt með að sitja stilltir og svo mætti telja,“ sagði Jón Már í brautskráningarræðu sinni á skólahátíð MA í morgun.

Jón Már ítrekaði orðalagið of ríka athygli; hann hefði ekki talað um athyglisbrest.

Stuðningur og leiðsögn

„Við í MA höfum í nokkurn tíma stefnt frá flokkun af þessu tagi t.d. með starfsþróun kennara, öflugri fagstjórn, samstarfi og samþættingu greina, aukinni námsráðgjöf og sálfræðiþjónustu en fyrst og fremst með því að treysta starfsfólki og nemendum til þess að vilja gera eins vel og mögulegt er. Það þarf að hafa fyrir bóknámi eins og öllu öðru námi, það þarf að sýna því áhuga og ástundun. Nám er þroskasamtal til skilnings, þar sem þekking er tengd saman og býr til nýja hugsun, nám,“ sagði skólameistari.

Fyrr í ræðunni nefndi Jón Már að nemendahópur MA væri mjög fjölbreyttur, því í langan tíma „höfum við tekið alla inn í skólann sem hafa lokið hæfnimarkmiðum grunnskólans, hér geta allir náð árangri sýni þeir áhuga og seiglu. Við í MA teljum mikilvægt að veita nemendum góðan stuðning og leiðsögn svo þeir hrökklist ekki frá námi ef eitthvað bjátar á. Það þarf hugkvæmni til að koma til móts við þennan fjölbreytta nemendahóp og þar höfum við öflugt stoðteymi, tvo náms-og starfsráðgjafa og skólasálfræðing sem vinna mjög gott verk. Þau nálgast verkefnið sitt sem forvörn, meðal annars með því að hitta alla nýnema einu sinni í viku í nýnemafræðslu. Þetta góða starf hefur spurst út og foreldrar treysta okkur frekar fyrir börnum sínum af því að við höfum sérfræðinga á staðnum með úrræði.“

Við hlustum og ræðum við nemendur

Jón Már sagði kennara MA hafa í auknum mæli verið að tileinka sér leiðsagnarkennslu sem kennsluaðferð og hún verði í enn ríkara mæli hluti af starfsþróun kennara í MA. „Inn í þessa hugmyndafræði fléttast verkefnamiðað nám og kennsla, því slíkt vinnulag þurfa nemendur að hafa á valdi sínu í námi og starfi í framtíðinni. Þau verkefni sem nemendur eru að vinna eru m.a. hugsuð sem leiðsögn til nemenda og einnig til að auka skuldbindingu nemandans gagnvart náminu því það er grundvallaratriði að nemandinn sjái tilgang og markmið með því verkefni sem hann er að vinna.

Hugmyndafræði lokaprófa er ekki lengur ráðandi í MA, enda er það svo að lokapróf eru gamaldags kúgunartæki feðraveldis embættismanna og hafa aldrei haft neitt með nám og menntun að gera heldur verið þægilegt guðlegt tæki til að flokka fólk og útdeila gæðum. Það þarf ekki að fara langt aftur í tíma til að rifja upp að þetta tæki sendi alla með lesörðugleika burt, alla með of ríka athygli burt, alla sem áttu erfitt með að sitja stilltir og svo mætti telja.“

Jón sagði einhverja kunna að halda að þarna væri að hann að vísa í stærðfræði- og raungreinakennara undir rós en það væri öðru nær, undanfarin misseri hefði hvað mest gróska verið í þeirra röðum. „Við í MA höfum í nokkurn tíma stefnt frá flokkun af þessu tagi t.d. með starfsþróun kennara, öflugri fagstjórn, samstarfi og samþættingu greina, aukinni námsráðgjöf og sálfræðiþjónustu en fyrst og fremst með því að treysta starfsfólki og nemendum til þess að vilja gera eins vel og mögulegt er. Það þarf að hafa fyrir bóknámi eins og öllu öðru námi, það þarf að sýna því áhuga og ástundun. Nám er þroskasamtal til skilnings, þar sem þekking er tengd saman og býr til nýja hugsun, nám.“

Skólameistari kom inn á að í opinberum könnunum kæmi fram að sífellt stækkandi hópur framhaldsskólanema sæi lítinn tilgang með framhaldsskólanámi sínu. „Við hlustum á þetta í MA og ræðum við nemendur okkar, hvað þarf til hjá okkur? Góð leið gæti verið að taka alla nýnema í starfsviðtal í upphafi skóla og síðan í upphafi hvers skólaárs. Við gerum þetta við hraðlínunemendur okkar, þau sem koma ári fyrr í skólann, þau koma í starfsviðtal í upphafi, þeim tíma er vel varið. Ég hef trú á því að það geri skólagönguna meira alvöru, meiri skuldbindingu þau þróist úr nemanda í öflugt námsfólk.

Með þessum hætti getum við lagt enn meiri áherslu á spurninguna, sem sprettur fram af forvitni, því við ætlum nemendum okkar að vera spurulir, gagnrýnir og flinkir í öllum samskiptum.“

Fákunnátta og skilningsleysi fjárveitingavaldsins

Jón Már sagði MA alltaf hafa haft sérstaka útgáfu af bekkjakerfi og svo verði áfram. „Bekkjakerfið þjónar nemendum og náminu, bekkur á að vera öflug félagseining sem styður og hvetur og við grípum inn í ef bekkjareining er ekki að virka á þennan hátt. Í bekkjakerfið okkar hefur verið búinn til sveigjanleiki sem er hugsaður fyrir þá nemendur sem vilja sjálfir stjórna námsálagi sínu. Þannig geta nemendur lokið stúdentsprófi á þremur, þremur og hálfu eða fjórum árum. Það er hins vegar slæmt að fjárveitingar til bekkjaskóla refsa þeim fyrir að vera með bekkjakerfi og slíkt ber vott um fákunnáttu og skilningsleysi fjárveitingavaldsins, sem kallar eftir sérhæfðum undirbúningi nemenda, til dæmis í raungreinum,” sagði Jón Már Héðinsson.