Fara í efni
Fréttir

Lecce hagnast vel á Brynjari Inga

Brynjar Ingi Bjarnason og Jørgen Ingebrigtsen, íþróttastjóri Vålerenga, í Osló í gær. Á litlum myndinni eru Brynjar Ingi og Pantaleo Corvino, hæstráðandi hjá Lecce, þegar KA-maðurinn samdi við ítalska félagið í sumar.

Ítalska knattspyrnufélagið Lecce ávaxtaði sitt pund afar vel með því að fjárfesta í landsliðsmanninum Brynjari Inga Bjarnasyni. Félagið keypti hann frá KA í sumar og Brynjar skrifaði undir samning í byrjun júlí. Hann var svo seldur í vikunni til norska félagsins Vålerenga eftir að hafa fengið fá tækifæri í ítölsku B-deildinni.

Lecce keypti Brynjar af KA á 250.000 evrur skv. heimildum Akureyri.net – andvirði um 37 milljóna króna. Heimildir herma að norska félagið greiði því ítalska 550.000 evrur fyrir íslenska landsliðsmanninn. Það samsvarar um 81 milljón króna. Því er óhætt að segja að sex mánaða dvöl Brynjars Inga hjá Lecce hafi verið góður bissness fyrir ítalska félagið!

KA fær hluta af hagnaði Lecce, þeim 44 milljónum sem Brynjar Ingi hefur hækkað í verði síðan hann hélt utan í sumar en Akureyri.net veit ekki hve mikið KA fær í sinn hlut.