Fara í efni
Fréttir

Landsliðsskórnir komnir á hilluna!

Fjölskyldan heima á Akureyri í sumar: Arnór Þór Gunnarsson og Jovana Lilja Stefánsdóttir ásamt börnu…
Fjölskyldan heima á Akureyri í sumar: Arnór Þór Gunnarsson og Jovana Lilja Stefánsdóttir ásamt börnum þeirra, Díönu og Alex Þór. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Arnór Þór Gunnarsson, fyrirliði Íslands á heimsmeistaramótinu í handbolta í byrjun þessa árs, hefur ákveðið að leggja landsliðsskóna á hilluna. Hann var í 35 manna æfingahópi Guðmundar Guðmundssonar landsliðsþjálfara sem tilkynntur var í gær fyrir Evrópumótið í Ungverjalandi og Slóvakíu janúar, en segist ekki verða með á mótinu.

„Ástæða þess að ég hef ákveðið að hætta er að álagið sem fylgir því að spila bæði með félagsliði og landsliði er einfaldlega of mikið; ég er með brjóskeyðingu í hægri mjöðm og mjöðmin þolir ekki að ég leiki á tveggja eða þriðja daga fresti eins og landsliðið gerir á stórmóti eins og EM,“ sagði Arnór Þór við Akureyri.net í dag.

Þarf að geta sinnt vinnunni

„Ég er orðinn 34 ára, á eftir eitt og hálft ár af atvinnumannssamningi hér í Þýskalandi og verð að hugsa um að geta sinnt vinnunni sem best. Skrokkurinn þolir ekki að spila bæði á fullu með félagsliðinu og landsliðinu.“ Þessi snjalli Þórsari hefur leikið síðustu 10 ár með liðið Bergischer HC en leggur keppnisskóna á hilluna vorið 2023 og verður frá þeim tíma hluti af þjálfarateymi liðsins, eins og fram hefur komið.

Arnór Þór tilkynnti Guðmundi landsliðsþjálfara í tengslum við lokaleikina í undanriðli EM í vor að það yrðu síðustu leikir hans með liðinu. „HSÍ spurði svo núna hvort ég væri tilbúinn að vera á 35 manna listanum og ég samþykkti það; ef svo ólíklega vildi til að allir hinir þrír hægri hornamennirnir meiddust eða heltust einhverra hluta vegna úr lestinni í miðju móti þá gæti ég hjálpað til, en gef að öðru leyti ekki kost á mér fyrir mótið,“ sagi hann í dag.

Stoltur – mikill heiður

Arnór segist kveðja landsliðið stoltur og ber þjálfurunum vel söguna. Hann var fyrst valinn árið 2008 þegar Guðmundur Guðmundsson, núverandi þjálfari, var stjórnvölinn. „Ég fékk nokkra leiki þá og var mjög þakklátur fyrir tækifærið. Aron Kristjánsson valdi mig svo á fyrsta stórmótið, HM 2013 á Spáni, og hápunkturinn með landsliðinu var EM í Danmörku árið eftir þar sem við lentum í 5. sæti. Geir Sveinsson tók svo við liðinu, frábær manneskja sem gott var að vinna með.“

Guðmundur Guðmundsson tók aftur við þjálfun landsliðsins 2018, „og hápunkturinn hjá mér persónulega var á HM í Þýskalandi 2019; árangur liðsins var reyndar ekkert frábær, við lentum í 14. sæti, en ég spilaði líklega best þá á landsliðsferlinum,“ segir Arnór.

„Guðmundur gerði mig svo að fyrirliða fyrir HM í Egyptalandi á þessu ári og fyrir það er ég líka mjög þakklátur og stoltur. Það var mikill heiður – og það er mikill heiður að hafa fengið að spila 120 landsleiki fyrir Ísland og að fara á níu stórmót! Nú er þetta hins vegar orðið gott. Ég verð að hugsa um heilsuna, en verð stuðningsmaður númer eitt í janúar! Ég fylgist vel með og verð klappstýra í sófanum heima!“

Arnór Þór Gunnarsson á landsliðsæfingu fyrir HM í Egyptalandi í janúar á þessu ári. Ljósmynd: Ívar Benediktsson/handbolti.is