Eygló er íþróttamaður ársins – Tryggvi þriðji
Eygló Fanndal Sturludóttir, lyftingakona úr Lyftingafélagi Reykjavíkur, er íþróttamaður ársins 2025. Gísli Þorgeir Kristjánsson, handboltamaður í Magdeburg, varð annar og Tryggvi Snær Hlinason, körfuboltamaður úr Bárðardal sem hóf ferilinn með Þór, varð í þriðja sæti í kjörinu að þessu sinni. Tryggvi, sem var nú í þriðja skipti á meðal 10 efstu í kjörinu, hafði áður lent í 9. og 10. sæti.
Vert er að geta þess að Baldvin Þór Magnússon, hlaupari í Ungmennafélagi Akureyrar, lenti í 17. sæti í kjörinu en alls hlutu 24 íþróttamenn stig. Þá fékk kvennalið KA í blaki eitt stig í kjöri liðs ársins.
Þetta var í 70. skipti sem Samtök íþróttafréttamanna kjósa íþróttamann ársins og mikið var um dýrðir í gærkvöld í Silfurbergi, í menningarhúsinu Hörpu í miðborg Reykjavíkur.
- Þjálfari ársins var kjörinn Ágúst Þór Jóhannsson sem stýrði kvennaliði Vals í handknattleik.
- Kvennalið Vals í handknattleik er lið ársins enda varð það bæði Íslandsmeistari og Evrópubikarmeistari; varð fyrst íslenska kvennaliðið í hópíþrótt sem verður Evrópumeistari.
Í hófinu, sem Samtök íþróttafréttamanna og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) halda í sameiningu var íþróttakonu og íþróttakarli hvers sérsambands afhent verðlaun sín, og ÍSÍ heiðraði að auki tvo einstaklinga:
- Jón Arnar Magnússon, fyrrverandi frjálsíþróttakappi, var tekinn í Heiðurshöll ÍSÍ. Jón Arnar, íþróttamaður ársins 1995 og 1996, er sá 27. sem hlotnast sá heiður. Nánar um Jón Arnar hér á vef ÍSÍ.
- Bjarni Malmquist Jónsson, sem starfað hefur fyrir Umfélagið Vísi og Ungmennasambandið Úlfljót, var útnefndur Íþróttaeldhugi ársins 2025. Nánar um hann hér á vef ÍSÍ.
- Á vef RÚV má sjá ýmislegt um kjörið og hófið í gærkvöld: Íþróttavefur RÚV.
Íþróttamaður ársins 2025
Hér má sjá hvaða íþróttamenn fengu stig í kjöri íþróttafréttamanna. Allir 30 félagar í Samtökum íþróttafréttamanna tóku þátt í kjörinu að þessu sinni og mest var hægt að fá 600 stig.
- Eygló Fanndal Sturludóttir, lyftingar – 532 stig
- Gísli Þorgeir Kristjánsson, handknattleikur – 458 stig
- Tryggvi Snær Hlinason, körfuknattleikur – 211 stig
- Dagur Kári Ólafsson, fimleikar – 143 stig
- Glódís Perla Viggósdóttir, knattspyrna – 142 stig
- Hákon Arnar Haraldsson, knattspyrna – 115 stig
- Jón Þór Sigurðsson, skotfimi – 73 stig
- Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sund – 65 stig
- Hildur Maja Guðmundsdóttir, fimleikar – 59 stig
- Ómar Ingi Magnússon, handknattleikur – 51 stig
- Gunnlaugur Árni Sveinsson, golf – 47 stig
- Hanna Rún Óladóttir Bazev og Nikita Bazev, dans – 42 stig
- Cecilía Rán Rúnarsdóttir, knattspyrna – 38 stig
- Albert Guðmundsson, knattspyrna – 35 stig
- Thea Imani Sturludóttir, handknattleikur – 33 stig
- Viktor Gísli Hallgrímsson, handknattleikur – 32 stig
- Baldvin Þór Magnússon, frjálsíþróttir – 30 stig
- Konráð Valur Sveinsson, hestaíþróttir – 26 stig
- Elvar Már Friðriksson, körfuknattleikur – 23 stig
- Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, skíði – 17 stig
- Elín Klara Þorkelsdóttir, handknattleikur – 12 stig
- Ragnhildur Kristinsdóttir, golf – 2 stig
Jóhann Berg Guðmundsson, knattspyrna – 2 stig
Thelma Aðalsteinsdóttir, fimleikar – 2 stig
Þjálfari ársins 2025 – þessir fengu stig í kjöri íþróttafréttamanna:
- Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handbolta – 97 stig
- Dagur Sigurðsson, þjálfari karlalandsliðs Króatíu í handbolta – 71 stig
- Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlalandsliðs Írlands í fótbolta – 38 stig
- Einar Jónsson, þjálfari karlaliðs Fram í handbolta – 24 stig
- Freyr Alexandersson, þjálfari karlaliðs Brann í fótbolta – 15 stig
- Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfubolta – 11 stig
- Sigurbjörn Bárðarson, landsliðsþjálfari í hestaíþróttum – 7 stig
- Ingi Gunnar Ólafsson, lyftingaþjálfari – 4 stig
- Sölvi Geir Ottesen, þjálfari karlaliðs Víkings í fótbolta – 3 stig
Lið ársins 2025
- Valur – kvennalið í handbolta – 123 stig
- Breiðablik – kvennalið í fótbolta – 64 stig
- Fram – karlalið í handbolta – 44 stig
- Íslenska landsliðið í hestaíþróttum – 22 stig
- Stjarnan – kvennalið í hópfimleikum – 12 stig
- Víkingur – karlalið í fótbolta – 3 stig
- Karlalandslið Íslands í handbolta – 1 stig
KA – kvennalið í blaki – 1 stig