Kjöri íþróttamanns ársins lýst – Tryggvi á listanum
Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfubolta og leikmaður Surne Bilbao Basket á Spáni, er eini norðanmaðurinn meðal 10 efstu í kjöri Íþróttamanns ársins árið 2025. Kunngjört verður í kvöld hver hlýtur nafnbótina.
Þetta er í 70. skipti sem Samtök íþróttafréttamanna standa að kjörinu og verður sýnt frá athöfninni í Ríkissjónvarpinu – bein útsending hefst klukkan 19.40.
Eftirtaldi íþróttamenn eru í 10 efstu sætum í kjörinu að þessu sinni:
- Dagur Kári Ólafsson – fimleikar
- Eygló Fanndal Sturludóttir – ólympískar lyftingar
- Gísli Þorgeir Kristjánsson – handbolti
- Glódís Perla Viggósdóttir – knattspyrna
- Hákon Arnar Haraldsson – knattspyrna
- Hildur Maja Guðmundsdóttir – fimleikar
- Jón Þór Sigurðsson – skotfimi
- Ómar Ingi Magnússon – handbolti
- Snæfríður Sól Jórunnardóttir – sund
- Tryggvi Snær Hlinason – körfubolti
Tryggvi Snær, sem hóf körfuknattleiksferil sinn með Þór og vakti snemma gríðarlega athygli, leikur með Surne Bilbao Basket á Spáni. Hann var á dögunum valinn körfuknattleikskarl ársins hérlendis annað árið í röð og þá sendi Körfuknattleikssamband Íslands frá sér svohljóðandi umsögn:
Tryggvi Snær átti stórkostlegt ár með félagsliði sínu Bilbao Basket og íslenska landsliðinu. Bilbao sigraði FIBA Europe Cup með glæsilegum sigri á PAOK frá Grikklandi í úrslitaeinvígi. Tryggvi átti sinn besta leik í undanúrslitum keppninnar, þegar hann var framlagshæstur sinna manna í sigri á Tofas frá Tyrklandi. Tryggvi var frábær fyrir íslenska landsliðið á Eurobasket í Póllandi. Hann leiddi íslenska liðið í stigaskorun og fráköstum, og var sjötti framlagshæsti leikmaður mótsins, ásamt því að enda í öðru sæti í 2 stiga skotnýtingu – á milli þeirra Giannis Antetokounpo og Nikola Jokic.
Einn Akureyringur hefur hlotið nafnbótina Íþróttamaður ársins – Alfreð Gíslason, handboltamaður úr KA, árið 1989, þegar hann lék með Bidasoa frá Irun á Spáni.