Fara í efni
Fréttir

Landsátak í sundi – námskeið á Akureyri

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Landsátakið Syndum hefst í dag, 1. nóvember. „Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi og nota meðal annars sund til þess. Munum eftir því hvað sund er frábært!“ segir meðal annars á vef Sundsambands Íslands (SSÍ).

Það var í tilefni 70 ára afmælis Sundsambandsins sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) ákvað, í samstarfi við SSÍ, að setja í gang landsátak. Syndum er heilsu- og hvatningarverkefni sem stendur yfir frá 1. - 28. nóvember.

Þátttakendur skrá sína sundvegalengd inn á www.syndum.is og á forsíðu verkefnisins er hægt að fylgjast með hversu landsmenn hafa synt langt saman.

Námskeið hjá Óðni 

Vert er að geta þess að í kvöld hefst námskeið hjá sundfélaginu Óðni á Akureyri, fyrir garpa – 18 ára og eldri. Kennt er tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum frá klukan 19.30 til 20.30, en þátttakendur fá einnig í hendur æfingaáætlun til að synda eftir þegar þeim hentar. Námskeiðsgjald er 25.000 krónur og auk þess þurfa iðkendur að greiða fyrir aðgang að sundlauginni, eigi þeir ekki sundkort.

Á vef Óðins segir: Garpar er sundhópur fyrir fólk 18 ára og eldri, jafnt byrjendur sem lengra komna sem hafa áhuga á að stunda góða hreyfingu í skemmtilegum félagsskap. Æfingar miða að því að læra réttu sundtökin, auka samhæfni, laga tæknina auk þess að styrkja og auka úthaldið. Aðal markmiðið er ánægja og vellíðan með áherslu á að bæta þol og tækni í sundi.

Sundþjálfari Garpa er Kristjana Pálsdóttir, lýðheilsufræðingur. Hún hefur æft sund í mörg ár, þjálfað yngri flokka félagsins og er einstök áhugamanneskja um heilbrigðan lífsstíl á öllum aldri. Sundfélagið er virkilega ánægt með þessa öflugu viðbót við þjálfarateymi félagsins.