Fara í efni
Fréttir

Kristján Kristjánsson sæmdur fálkaorðunni

Akureyringurinn Kristján Kristjánsson, heimspekingur og prófessor, var í dag einn 14 Íslendinga sem sæmdir voru hinni íslensku fálkaorðu. Hann hafði reyndar ekki tök á að veita henni mótttöku í dag en gerir það fljótlega.

„Mjög þakklátur fyrir að hafa fengið Fálkaorðuna í dag. Gat því miður ekki komið heim um áramótin að taka við henni en hitti forsetann á Bessastöðum seinna í janúar þegar ég verð á Íslandi að taka við henni,“ skrifaði Kristján Facebook síðu sína í dag.

Kristján, sem er prófessor við háskólann í Birmingham á Englandi, hlýtur fálkaorðuna „fyrir kennslu- og fræðistörf á vettvangi siðfræði og mannkostamenntunar,“ segir á vef embættis forseta Íslands í dag.

Meðal þeirra sem hlutu fálkaorðuna í dag eru Ásgeir Sigurvinsson, að margra mati besti knattspyrnumaður sem Íslendingar hafa eignast, og tónlistarkonan Laufey Lín Bing Jónsdóttir.

Á myndinni eru forsetahjónin, Halla Tómasdóttir og Björn Skúlason, ásamt fálkaorðuhöfum – öðrum en Kristjáni Kristjánssyni – á Bessastöðum í dag. Eftirtaldir hlutu orðuna í dag:

  • Anna Júlíana Sveinsdóttir, söngkona og söngkennari, fyrir framlag til klassískrar tónlistarmenntunar.
  • Ásgeir Sigurvinsson, fyrrverandi knattspyrnumaður, fyrir afreksárangur í knattspyrnu.
  • Bragi Valdimar Skúlason, hugmynda- og tónhöfundur, fyrir framlag til þróunar og varðveislu íslenskrar tungu.
  • Guðrún Þorgerður Larsen, jarðfræðingur, fyrir framlag til jarðvísinda og almannavarna.
  • Ingólfur Guðnason, garðyrkjufræðingur, fyrir frumkvöðlastörf í lífrænni ræktun og kennslu.
  • Karl Gunnarsson, sjávarlíffræðingur, fyrir framlag til rannsókna á botnþörungum, lífríki hafsins og vistkerfi strandsvæða.
  • Kristján Kristjánsson, heimspekingur og prófessor, fyrir kennslu- og fræðistörf á vettvangi siðfræði og mannkostamenntunar.
  • Laufey Lín Bing Jónsdóttir, tónlistarkona, fyrir framlag til tónlistar á Íslandi og á alþjóðavettvangi.
  • Pálmi V. Jónsson, lyf- og öldrunarlæknir og prófessor emeritus, fyrir framlag til öldrunarlækninga og nýsköpunar í öldrunarþjónustu.
  • Rósa Marinósdóttir, hjúkrunarfræðingur, fyrir sjálfboðastörf í þágu íþróttaiðkunar ungs fólks um allt land og framlag til samfélagsmála í heimabyggð.
  • Sigríður Sigurðardóttir, fyrrverandi safnstjóri, fyrir framlag til varðveislu torfbæja og annarra menningarminja.
  • Valgerður Benediktsdóttir, fyrrverandi réttindastjóri, fyrir framlag til framgangs íslenskra bókmennta á erlendri grundu.
  • Yngvi Pétursson, fyrrverandi rektor og kennari, fyrir framlag til menntunar og brautryðjendastarfs í tölvufræðikennslu á Íslandi.
  • Þórey Einarsdóttir, umsjónarkona, fyrir framlag til heimilislausra og bágstaddra.

Vefur forsetaembættisins