Fara í efni
Fréttir

Akureyrarvaka og forsetinn – MYNDIR

Einn nemenda leikskólans Klappa, Arna Líf Reynisdóttir, færði forsetahjónunum, Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid, fallega mynd að gjöf þegar þau heimsóttu skólann í gær. Forsetinn klippti á borða ásamt Höllu Björk Reynisdóttur forseta bæjarstjórnar og þar með vígðu þau húsið formlega. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Opinber heimsókn forsetahjónanna til Akureyrar hófst í gærmorgun og stendur yfir þar síðdegis í dag. Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid flugu norður með Icelandair snemma morguns, komu víða við í bænum og dagskránni lauk seint í gærkvöldi með heimsókn á tónleika söngkonunnar GDRN og píanóleikarans Magnis Jóhanni í Hofi.

Fjölmenni var samankomið í Lystigarðinum í gærkvöldi þar sem forsetinn setti árlega bæjarhátíð, Akureyrarvöku, og þar var síðan boðið upp á tónlistaratriði og dans.

Óhætt er að segja að bæjarbúar hafi tekið vel á móti forsetahjónunum og ekki síður veðurguðirnir; þeir buðu upp á eitt allra besta veður sumarsins – hitinn á Akureyri fór mest í 23,9 gráður og sólin skein skært allan daginn.

Akureyri.net fylgdist grannt með forsetahjónunum í gær. Hér má sjá nokkrar myndir og mun fleiri birtast síðar.

Forsetinn verður snemma á fótum í dag. Hann ætlar út að skokka og er öllum velkomið að hlaupa með honum. Guðni leggur af stað frá Hótel KEA klukkan 8.00

Forsetahjónin ásamt Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra og Höllu Björk Reynisdóttur, lengst til hægri, við setningu Akureyrarvöku í Lystigarðinum í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Rökkurró í Lystigarðinum - Akureyrarvaka sett í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Forseti lýðveldisins brá á leik eftir að hafa vígt leikskólann Klappir. Stóðst ekki mátið þegar hann sá þessa flottu rennibraut milli hæða í byggingunni glæsilegu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Nemendur Naustaskóla ásamt forsetahjónunum. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Forsetahjónin sóttu sameiginlegan kynningarfund nokkurra fyrirtækja sem haldinn var í Slippnum; á hæð sem verið er að gera upp fyrir sjávarútvegsklasa. Reynir Bjarnar Eiríksson, framkvæmdastjóri Vélfags, segir hér frá fyrirtækinu. Til hægri standa stofnendur þess, Bjarmi Sigurgarðarsson og Ólöf Ýr Lárusdóttir. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Rökkurró í Lystigarðinum - Akureyrarvaka sett í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tríó Kristjáns Edelstein lék á LYST í Lystigarðinum eftir setningu bæjarhátíðarinnar. Hér er hljómsveitarstjórinn í miklu stuði. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ekki beint frýnilegur, þessi – á Draugaslóð á Hamarkotstúni seint í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson