Fara í efni
Fréttir

Opinber heimsókn Guðna og Elizu hefst í dag

Forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid, á fundi í Lystigarðinum á Akureyri fyrir forsetakosningarnar árið 2020. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og Eliza Reid, forsetafrú, verða í opinberri heimsókn á Akureyri í dag og á morgun, 25. og 26. ágúst. eins og Akureyri.net hefur áður greint frá. Þetta er fyrsta opinbera heimsókn þeirra til bæjarins.

Dagskrá forsetahjónanna er fjölbreytt. Þau funda með bæjarstjóra og bæjarstjórn, heimsækja söfn, skóla og vinnustaði, og síðast en ekki síst taka þau virkan þátt í viðburðum á afmælishátíð Akureyrarbæjar, Akureyrarvöku, sem fram fer um helgina.

Forsetahjónin flagga m.a. fána Akureyrarvöku með leikskólabörnum fyrir hádegi  í dag sú athöfn hefst kl. 9.00 efst í Listagilinu – og forsetinn setur Akureyrarvöku í Lystigarðinum í kvöld. Í tilkynningu frá sveitarfélaginu eru bæjarbúar hvattir til að fjölmenna í garðinn og fagna forsetahjónunum og upphafi hátíðarinnar.

Viltu skokka með forsetanum?

Í fyrramálið, að morgni laugardags,  skokkar forsetinn um bæinn í fylgd hópsins UFA Eyrarskokk og eru öll hjartanlega velkomin að slást í för með þeim, segir í tilkynningu. Forsetahjónin taka síðan þátt í sögugöngu um Innbæinn fyrir hádegi á laugardag og vígslu svonefndra sögustaura sem er nýtt verkefni á vegum Minjasafnsins. Eftir hádegið á laugardag hafa Guðni og Eliza m.a. viðkomu í Garðinum hans Gústa við Glerárskóla, heimsækja Hof og taka þátt í 30 ára afmælishátíð Listasafnsins á Akureyri.