Fara í efni
Fréttir

Kona talsvert slösuð en ekki í lífshættu

Björgunarmenn fluttu konuna sem slasaðist niður fjallið í svokallaðri skel. Myndir af vettvangi í dag: Landsbjörg
Kona slasaðist talsvert í snjóflóðinu í Dalsmynni í Fnjóskadal í dag en er ekki talin í lífshættu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra. Ekki var hægt að komast á slysstaðinn á sleðum eða öðrum tækjum þannig að björgunarmenn urðu að fara fótgangandi og klofa djúpan snjó á leiðinni. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út en lenti á Akureyri.
 

„Mikil snjóflóðahætta var á vettvangi, ásamt því að veðurskilyrði voru erfið, og var því ákveðið að þyrlan færi ekki beint á vettvang meðan unnið væri að því að tryggja öryggi björgunaraðila. Ekki var unnt að komast á vettvang á sleðum eða öðrum tækjum og þurftu björgunaraðilar að fara fótgangandi og klofa djúpan snjó á leið sinni á vettvang,“ segir í tilkynningunni.

„Konan sem slasaðist reyndist vera með talsverða áverka og m.a. fótbrotin. Viðbragðsaðilar hlúðu að henni á vettvangi og bjuggu um hana til flutnings í svokallaðri skel. Konan var borin í skelinni niður fjallið og var komin í sjúkrabíl kl. 18:24. Hún var þá orðin nokkuð köld og var flutt til aðhlynningar á Sjúkrahúsið á Akureyri. Frekari upplýsingar um áverka hennar liggja ekki fyrir þegar þetta er skráð.“

Í tilkynningunni segir að alls hafi um 130 viðbragðsaðilar komið að aðgerðinni „og má geta þess að skráðir voru í aðgerðina 20 bílar, 24 vélsleðar, 1 þyrla, 3 leitarhundar, 1 snjóbíll, 1 dróni og 2 sjúkrabílar.“
 

Snjóflóð í Dalsmynni, þyrla LHG á leið norður

Einn slasaður –  nokkrir lentu í snjóflóðinu