Fara í efni
Fréttir

KA vann Ægi og er komið í undanúrslit

KA-menn fagna fyrsta markinu, sem Sveinn Margeir Hauksson skoraði á 76. mínútu. Frá vinstri: Nökkvi Þeyr Þórisson – sem átti eftir að skora í tvígang – Sveinn Margeir, Jakob Snær Árnason, Daníel Hafsteinsson og Steinþór Freyr Þorsteinsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA-menn eru komnir í undanúrslit bikarkeppninnar í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninnar, eftir 3:0 sigur á 2. deildarliði Ægis á heimavelli í kvöld.

Eins og við var að búast var KA-liðið miklu meira með boltann og sótti af krafti en gestirnir vörðust vel. Fæðingin var því býsna erfið, ef svo má segja. KA-menn fengu ágæt færi til að skora en það var ekki fyrr en stundarfjórðungur var eftir af leiknum að Sveinn Margeir Hauksson braut ísinn; skoraði þá úr miðjum teig eftir undirbúning Jakobs Snæs Árnasonar og Nökkva Þeys Þórissonar. Þá voru úrslitin ráðin.

Nökkvi Þeyr gulltryggði svo sigurinn með tveimur mörkum þegar komið var í uppbótartíma; fyrst með föstu vinstri fótar hægra megin úr teignum eftir sendingu frá tvíburabróður sínum Þorra Mar, og síðan á lokasekúndunum vinstra megin úr teignum eftir snögga sókn.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Nökkvi Þeyr skýtur að marki í seinni hálfleik en Stefán Blær markvörður varði.

Bjarki Rúnar Jónínuson sækir að Steinþóri Má markverði KA.

Elfar Árni Aðalsteinsson í dauðafæri en Stefán Blær Jóhannsson varði.