Fara í efni
Fréttir

KA tekur á móti Vestra í Bestu deildinni

Bjarni Aðalsteinsson, til vinstri, og Rodri fagna jöfnunarmarki þess fyrrnefnda gegn FH um síðustu helgi. Rodri skoraði í fyrstu umferðinni gegn HK. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA fær Vestra frá Ísafirði í heimsókn í dag í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Viðureignin hefst kl. 14.00 og leikið verður á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið að vanda.

Byrjun KA-manna í deildinni hefur ekki verið eins og þeir vonuðust til. Tveir leikir eru að baki, báðir á heimavelli, og þeir hafa aðeins haft eitt stig upp úr krafsinu. Fyrst gerði KA 1:1 jafntefli við HK og tapaði síðan 3:2 fyrir FH.

Frammistaða KA-strákanna hefur reyndar verið betri en stigataflan ber með sér en þeir hafa ekki verið með skotskóna nægilega vel reimaða; hafa fengið töluvert af góðum færum til að skora en ekki tekist nógu oft til að safna fleiri stigum.

  • Spænski miðjumaðurinn Rodrigo Gomes Mateo skoraði snemma leiks gegn HK en gestirnir jöfnuðu og þar við sat.
  • Um síðustu helgi komust FH-ingar í 2:0 áður en Ásgeir Sigurgeirsson jafnaði seint í fyrri hálfleik. Bjarni Aðalsteinsson jafnaði snemma í þeim síðari og byr virtist kominn í KA-seglin. Ekki leið hins vegar á löngu þar til FH gerði þriðja markið og fleiri urðu þau ekki.

Vestri er án stiga í deildinni að tveimur leikjum loknum og hefur ekki enn ekki skorað; liðið tapaði fyrst 2:0 fyrir Fram í Reykjavík og síðan 4:0 fyrir Breiðabliki í Kópavogi. Þrír fyrstu leikir Ísfirðinga eru sem sagt á útivelli þar sem keppnisvöllur þeirra er ekki tilbúinn. Fyrsti heimaleikurinn,  sem fer fram um næstu helgi, verður raunar alls ekki á heimavelli, af sömu ástæðu, heldur tekur Vestri þá á móti HK á Avis-velli Þróttar í Laugardalnum í Reykjavík.

  • Vert er að benda á að freistandi ilm af grilluðum hamborgurum mun leggja yfir KA-svæðið fyrir leik eins og undanfarið og fjölskyldutilboð hefur verið auglýst. Því má slá tvær flugur í einu höggi; bjóða mannskapnum í síðbúinn hádegisverð og á 90 mínútna knattspyrnuskemmtun.