Fara í efni
Fréttir

KA tekur á móti Fram í bikarkeppni KSÍ

Bjarni Aðalsteinsson kemur KA yfir, 2:1, gegn Fram í Bestu deildinni á heimavelli í fyrrasumar. Þetta var á 51. mín. Eftir hornspyrnu frá Hallgrími Mar reis Bjarni hæst í teignum og skallaði boltann í bláhornið. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn taka á móti Frömurum í dag í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninnar. Viðureignin á KA-vellinum (Greifavellinum) hefst klukkan 18.00.

KA og Fram hafa mæst fjórum sinnum í bikarkeppni KSÍ í gegnum tíðina, síðast í 16-liða úrslitum sumarið 2022. KA vann þá örugglega, 4:1, með þremur mörkum Nökkva Þeys Þórissonar og því fjórða frá Hallgrími Mar Steingrímssyni.

Framarar eru í sjötta sæti Bestu deildar Íslandsmótsins með 13 stig að loknum níu leikjum en KA-menn, sem einnig eiga níu leiki að baki, eru í 11. og næst neðsta sæti með fimm stig.

Liðin mættust þrisvar í Bestu deildinni í fyrra, KA vann fyrsta leikinn 4:2 á heimavelli, Fram snéri blaðinu við og sigraði 2:1 í Úlfarsárdalnum og Framarar sigruðu síðan aftur, 1:0, í keppni sex neðri liðanna eftir að deildinni var skipt, einnig á heimavelli.

Þetta er þriðji leikur KA-strákanna í bikarkeppninni í sumar. Þeir byrjuðu á því að leggja ÍR 2:1 á heimavelli í 32-liða úrslitum þar sem Harley Willard náði forystunni, ÍR-ingar jöfnuðu á lokasekúndum hefðbundins leiktíma en Daníel Hafsteinsson tryggði KA sigur með glæsilegu marki undir lok framlengingar.

Í 16-liða úrslitum sló KA út lið Vestra með því að sigra 3:1. Rodri, Hans Viktor Guðmundsson og Bjarni Aðalsteinsson skoruðu í seinni hálfleik eftir að gestirnir tóku forystu seint í fyrri hálfleik.

Spennandi verður að sjá bardaga liðanna í dag. Eins og sagði hér í upphitun fyrir leik Þórs og Stjörnunnar í bikarkeppninni í gærkvöldi: Staða í deildarkeppni skiptir sjaldnast máli þegar bikarkeppnin er annars vegar og óhætt að reikna með því að þótt Framarar séu ef til vill taldir sigurstranglegri, miðað við gengi liðanna í sumar, séu möguleikar KA á að komast í fjögurra liða úrslit ekki minni.

Upphitun stuðningsmanna hefst í KA-heimilinu klukkan 16.00 og Hallgrímur Jónasson þjálfari mætir kl. 16.45 og segir stuðningsmönnum frá því hvernig hann leggur leikinn upp.

Dásamlegt veður er á Akureyri þessa stundina og verður fram á kvöld. Hiti gæti orðið 15 stig þegar flautað verður til leiks, jafnvel meira, og sólin mun skína í svolitlum suðaustan andvara. Frábærar aðstæður.

 
Ásgeir Sigurgeirsson er markahæstur KA-manna í Bestu deildinni í sumar með þrjú mörk. Hann hefur enn ekki komið við sögu í bikarkeppninni. Hér sækir Ásgeir boltann í markið eftir að hann skoraði gegn FH fyrr í sumar. Mynd: Þórir Tryggvason.