Fara í efni
Fréttir

KA velti 510 milljónum – 33,5 milljóna hagnaður

Brynjar Ingi Bjarnason var seldur frá KA til Lecce á Ítalíu í fyrrasumar en er nú kominn til Vålerenga í Noregi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnufélag Akureyrar velti um 510 milljónum króna á síðasta ári. Velta félagsins í heild var meiri en nokkru sinni. Þetta kemur fram á heimasíðu KA.

Aðalfundur KA var haldinn í gær, þar sem Eiríkur S. Jóhannsson var kjörinn formaður félagsins. Hann hafði verið varaformaður en tók raunar við formennsku þegar Ingvar Már Gíslason steig til hliðar í lok febrúar.

„Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA fór yfir ársreikning félagsins en hann er að mörgu leiti sögulegur. Í fyrsta skiptið fór velta félagsins í heild yfir 500 milljónir króna en alls nam upphæðin 509.626.354 krónum. Alls var félagið rekið með 33.504.995 króna hagnaði á árinu 2021 en hluti af því má rekja til leikmannasölu knattspyrnudeildar,“ segir á heimasíðu KA. Knattspyrnudeild félagsins seldi landsliðsmanninn Brynjar Inga Bjarnason til Lecce á Ítalíu á síðasta ári.

„KA er í raun orðið stórt fyrirtæki í Akureyrarbæ en rúmlega 80 einstaklingar fá greidd laun að einhverju eða öllu leiti hjá félaginu í hverjum mánuði. Félagið stendur afar vel, eignir félagsins eru 205.681.674 krónur og eigið fé er alls 139.863.254 krónur og ljóst að mjög gott starf hefur verið unnið undanfarin ár hjá KA,“ segir í frétt á heimasíðunni.

Nánar af aðalfundinum síðar

Eiríkur S. Jóhannsson formaður KA, fyrir miðju, veitti Ingvari Má Gíslasyni, sem steig til hliðar sem formaður í febrúar, og Þorbjörgu Jóhannsdóttur, þakklætisvott á fundinum fyrir þeirra framlag í aðalstjórn félagsins. Pétur Ólafsson, sem einnig gekk úr stjórn, var fjarverandi. Mynd af vef KA.