Fara í efni
Fréttir

Jón Torfi Halldórsson ráðinn í stöðu yfirlæknis

Gagngerar breytingar hafa staðið yfir á verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð síðustu mánuði. Þar verður opnuð heilsugæslustöð í lok janúar á næsta ári. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur gengið frá ráðningu Jóns Torfa Halldórrsonar í stöðu yfirlæknis á nýrri heilsugæslustöð stofnunarinnar sem tekin verður í notkun í janúar. Jón Torfi er annar yfirlæknanna sem sagt var upp störfum fyrr í haust vegna skipulagsbreytinga hjá HSN.

Jón Torfi og Valur Helgi Kristinsson höfðu starfað samhliða sem yfirlæknar á heilsugæslustöðinni, í raun að stýra sömu einingunni, sem gafst vel í heimsfaraldrinum því þá voru verkefnin yfirdrifin og hentaði vel að hafa tvo í þessari stöðu. Ætlunin var að halda áfram með tvo yfirlækna þegar hluti starfseminnar myndi flytjast í nýja heilsugæslustöð í Sunnuhlíð og hluti myndi starfa áfram á núverandi stað í Hafnarstræti. Þau áform breyttust vegna myglu sem kom upp í húsnæðinu í Hafnarstræti sem gerir það að verkum að öll starfsemi flytur þaðan þegar nýja stöðin verður opnuð. Hluti af starfseminni, yfirstjórn, sálfélagsleg þjónusta og stoðþjónusta starfa þó áfram að Hvannavöllum 14 og heimahjúkrun í leiguhúsnæði í Skarðshlíð þar til heilsugæslustöðvarnar verða orðnar tvær eftir um það bil þrjú ár.

Valur Helgi hefur ráðið sig til starfa hjá Heilsuvernd með sérstaka áherslu á Akureyri og nú er staðfest að Jón Torfi tekur við stöðu yfirlæknis, eða heldur í raun áfram sem yfirlæknir, við flutning heilsugæslustöðvarinnar í Sunnuhlíð í janúar. Jón Torfi var eini umsækjandi um stöðuna.

Gert er ráð fyrir að flutningsdagur í nýju stöðina í Sunnuhlíð verði 28. janúar 2024.