Fara í efni
Fréttir

Húsgögn og fleira úr gömlum netaafgöngum

Ágúst Aðalgeirsson starfsmaður Samherja sér um að taka á móti flokkuðum úrgangi skipa félagsins. Ljósmynd af vef Samherja.

Um borð í öllum fiskiskipum er skilvirkt flokkunarkerfi, svo sem kör sem eru með sér hólf fyrir spilliefni, málma, plast, almennan úrgang og síðan veiðarfæraúrgang. Netaafgangur sem kemur í land er fluttur út til Danmerkur og fleiri landa, þar sem hann er endurunninn og nýttur í ýmsar afurðir, til dæmis húsgögn. Frá þessu segir á vef Samherja.

Allt geymt

Ágúst Aðalgeirsson starfsmaður Samherja sér um að taka á móti flokkuðum úrgangi skipa félagsins, svo sem netaafgöngum sem hann sér um að flokka fyrir útflutning.

„Núna er ég að taka í sundur troll og flokka úr gamla Kaldbak, trollið er líklega fimm eða sex ára. Í fyrra tók ég í sundur troll úr fyrsta Baldvin Þorsteinssyni, enda höfum við hjá Samherja geymt allt sem kemur úr skipunum með það fyrir augum að hægt verði að endurvinna efnin með tíð og tíma,“ segir Ágúst á vef Samherja. „Það hafði því safnast upp lager en núna erum við langt komnir með að flokka þetta allt saman, þannig að það er ekki langt í að þetta verði gert jafn óðum. Nýjasta nýtt í þessum efnum er að gúmmí úr rochoppara fer til endurvinnslu, en ekki urðun eins og áður. Annars kemur fólk stundum hingað og falast eftir efni til að nýta, til dæmis í görðum,“ segir Ágúst, sem hefur starfað lengi í sjávaráutvegi.

Góður árangur

„Góð umgengni um hafið og fiskveiðar í sátt og samlyndi við náttúruna eru megin forsendur þess að fiskistofnar verði nýttir um alla framtíð. Á undanförnum árum hefur náðst góður árangur í minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi en ekki má láta staðar numið,“ segir á vef fyrirtækisins.

„Á hverjum tíma eru margvísleg verkefni í gangi hjá Samherja á sviði umhverfismála, enda markmiðið alltaf hið sama, starfa í sem bestri sátt við umhverfið. Til að fylgja eftir umhverfisstefnu Samherja, hefur félagið unnið með og fengið viðurkenningar frá mörgum viðurkenndum vottunaraðilum.“

Samherji til fyrirmyndar

Fram kemur að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og veiðarfæragerðir kringum landið reki skilakerfi fyrir veiðarfæraúrgang með þann tilgang að koma honum til endurvinnanlegrar úrvinnslu, þetta kerfi geta allir með veiðarfæraúrgang undir höndunum nýtt sér.

Hildur Hauksdóttir sérfræðingur í umhverfismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi hefur unnið með Samherja að umhverfismálum.

„Markmið sjávarútvegsins er að bæta sífellt hringrásina og meðal annars koma veiðarfærum til endurvinnslu og endurnýtingar og þannig skapa verðmæti úr úrgangi sem fellur til í starfseminni. Það er til fyrirmyndar hvernig Samherji stendur að málum við endurvinnslu veiðarfæra. Sjávarútvegsfyrirtæki eru meðvituð um að þau verða að vera hluti af hringrásarhagkerfinu, til hagsbóta fyrir alla hagaðila og samfélagið einnig,“ segir Hildur Hauksdóttir.

Skipverjar á Harðbak EA draga trollið inn.