Fara í efni
Fréttir

Hollvinir færðu SAk fósturómsjá að gjöf

Jóhannes Gunnar Bjarnason, formaður stjórnar Hollvinasamtaka SAk, Ingibjörg Jónsdóttir, yfirljósmóðir, og Orri Ingþórsson, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir við nýja tækið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) afhentu fæðinga- og kvensjúkdómadeild sjúkrahússins nýja fósturómsjá í dag. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða ómskoðunartæki til að greina og skoða fóstur.

Fósturómsjáin er í daglegri notkun á deildinni og því mikilvægt að tækið sé af albestu gerð, að sögn Orra Ingþórssonar, fæðinga- og kvensjúkdómalæknis og Ingibjargar Jónsdóttur, yfirljósmóður.

Ómsjáin kostaði um 13 milljónir króna. Jóhannes G. Bjarnason, formaður stjórnar Hollvina SAk, afhenti tækið formlega að viðstöddum nokkrum öðrum stjórnarmönnum.

Að auki afhentu Hollvinir SAk deildinni stórt sjónvarp til að setja á vegg og tengja tækinu. Það auðveldar aðstandendum að skoða myndir úr ómsjánni og nýtist einnig við kennslu og þjálfun nema.

Yfirljósmóðirin og læknirinn með nokkrum stjórnarmönnum. Frá vinstri: Ingibjörg Jónsdóttir, yfirljósmóðir, Bragi Bergmann, Jóhannes Gunnar Bjarnason, Kristín Sigfúsdóttir, Hermann Haraldsson, Jóhann Sigurðsson, og Orri Ingþórsson, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir, við nýju ómsjána í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson