Fara í efni
Fréttir

„Höfðingleg“ gjöf komin á Flugsafnið

Listflugvélin góða, TB-ABC, kominn á sinn stað í Flugsafni Íslands. Vélin mun prýða safnið um ókomna tíð. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Einni þekktustu listflugvél landsins hefur verið komið fyrir í Flugsafni Íslands á Akureyrarflugvelli.  Þar ræðir um TF-ABC, tékkneska Zlin Z-326 Trener-Master listflugvél sem skráð var á Íslandi 2. september 1966.

Eigendur vélarinnar höfðu samband við safnstjóra Flugsafnsins í vor til að kanna hvort safnið vildi fá vélina til eignar og varðveislu. „Höfðu þeir hug á því að hætta að fljúga henni og vildu að hún yrði varðveitt á Flugsafninu þar sem hún fengi notið sín. Stjórn safnsins þáði höfðinglegt boð þeirra fimmmenninga og var flugvélin formlega afhent Flugsafninu á árlegum Flugdegi safnsins þann 18. júní í sumar,“ segir Steinunn María Sveinsdóttir safnstjóri við Akureyri.net.

Helgi Rafnsson, einn eiganda Zlin Z-326 Trener-Master listflugvélarinnar TF-ABC, afhendir Steinunni Maríu Sveinsdóttur, safnstjóra Flugsafns Íslands, vélina til eignar og varðveislu á Flugdegi Flugsafns Íslands í sumar. Ljósmynd: Hörður Geirsson

Zlin Z-326 Trener-Master listflugvélin TF-ABC var skráð á Íslandi 2. september 1966. Eigendur voru Félag íslenskra einkaflugmanna og Flugmálafélag Íslands. Vélin var keypt glæný frá verksmiðjunni í Tékkóslóvakíu og með hingað til lands komu flugvirki sem sá um samsetningu vélarinnar og flugmaður sem sá um að kenna íslenskum flugmönnum á vélina.

TB-ABC í kunnuglegri „stellingu“ – á Flugdeginum á Akureyri sumarið 2005. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Magnús Norðdahl flugstjóri og Svanbjörn Sigurðsson á Flugdeginum 2005. Þeir eru báðir látnir. Magnús var einn eigenda TF-ABC og flaug henni mjög mikið. Svanbjörn var einn aðalhvatamaðurinn að stofnun Flugsafns Íslands og safnstjóri frá aldamótum, þegar safninu var komið á fót, til ársins 2009. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Á þeim tíma sem vélin var keypt hingað til lands var Zlin Z-326 Trener-Master talin ein fullkomnasta listflugvél sem völ var á og var ein sigursælasta flugvélategundin í alþjóðlegri listflugskeppni. Alls voru framleiddar 426 flugvélar af þessari gerð.

Eftir 1975 var TF-ABC komin í einkaeign áhugamanna um listflug. Eigendahópurinn hefur breyst í gegnum árin, en síðustu eigendur vélarinnar voru Ásgeir Christiansen, Friðrik Ingi Friðriksson, Helgi Rafnsson, Magnús Norðdahl heitinn, og Magnús Steinarr Norðdahl. Vélinni var síðast flogið á flugdegi Flugsafns Íslands 18. júní á þessu ári.

Listflugvélin, TB-ABC, á Flugdeginum á Akureyri sumarið 2005. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Um síðastliðin mánaðamót var komið að því að koma vélinni á endanlegan stað í safninu. „Allir sem að málinu komu voru sammála um að hengja ætti flugvélina upp í loft og hafa hana á hvolfi! Eftir góðan og þaulhugsaðan undirbúning Smára Árnasonar og Helga Rafnssonar var vélin hengt upp í loft með aðstoð góðra manna hjá Isavia og Erninum – Hollvinafélagi Flugsafnsins,“ segir Steinunn María, himinlifandi með þennan nýjasta grip safnsins.

Að neðan eru myndir Harðar Geirssonar frá því TB-ABC var hífð upp og komið fyrir til frambúðar í Flugsafni Íslands.