Fara í efni
Fréttir

„Heimsins fullkomnasta fiskvinnsluhús“ til sýnis

Mynd: Samherji

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli á Dalvík verður haldinn hátíðleg í 20. sinn á morgun, laugardag, en hátíðarhöldin eru í raun hafin og standa til sunnudags. Í kvöld er svokallað Fiskisúpukvöld þar sem margar fjölskyldur í bænum bjóða gestum og gangandi upp á dýrindis  súpu af ýmsu tagi.

„Gjörið svo vel, gangið í bæinn“

Nýtt fiskvinnsluhús Samherja á Dalvík var tekið í notkun í Covid heimsfaraldrinum, rétt áður en settar voru strangar sóttvarnarreglur og aðgengi takmarkað verulega. Á vef fyrirtækisins kemur fram að þessi stóri vinnustaður á Dalvík verður opinn almenningi á morgun, laugardag, frá klukkan 12:30 til 14:30. Sigurður Jörgen Óskarsson yfirverkstjóri segir Fiskidaginn kærkomið tækifæri til að sýna húsið, sem hefur hlotið alþjóðlega athygli fyrir tæknilausnir og góðan aðbúnað.

„Það hefur verið mikil ásókn í að skoða húsið og alla tæknina sem hérna er til staðar en aðgengið er mjög takmarkað þar sem um matvælaframleiðslu er að ræða. Okkur fannst ekki koma annað til greina en að sýna þetta magnaða hús á sjálfum Fiskideginum mikla, þar sem fiskur og sjávarafurðir eru í öndvegi. Við ætlum að hafa húsið opið frá klukkan 12:30 til 14:30 og sýnum með stolti vinnustaðinn. Ég er nokkuð viss um að gestir verða margs vísari um íslenskan sjávarútveg eftir heimsóknina og hversu framarlega við Íslendingar stöndum. Fyrir hönd Samherja og starfsfólksins segi ég einfaldlega gjörið svo vel, gangið í bæinn og skoðið heimsins fullkomnasta fiskvinnsluhús.“

Nánar hér á vef Samherja