Fara í efni
Fréttir

Heilsugæslustöðvar í ársbyrjun 2024 og 2026

Viðbyggingin og hluti verslunarmiðstöðvarinnar í Sunnuhlíð þar sem ný heilsugæslustöð tekur til starfa í byrjun janúar 2024. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Framkvæmdir við nýja heilsugæslustöð Heilbrigðisstofnunar Norðurlands í Sunnuhlíð, að hluta í húsnæði verslunarmiðstöðvarinnar og að hluta í nýbyggingu, ganga samkvæmt áætlun og reiknað með flutningi þangað um áramót. Ný heilsugæslustöð við Þingvallastræti er í albútboði og reiknað með að hún verði fullkláruð í lok árs 2025.

Bílakjallaramálin leyst

Um tíma var deilt um kostnaðarhlutdeild ríkis og sveitarfélags vegna fyrirhugaðs bílakjallara undir nýju heilsugæslustöðinni sem rísa mun við Þingvallastræti en Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, segir þau mál hafa verið leyst og niðurstaðan sé einhvers konar millivegur sem báðir aðilar ættu að geta sætt sig við, með 20 bílastæðum í kjallaranum.

Með deiliskipulagsbreytingu varð til lóð nr. 23 við Þingvallastræti þar sem heilsugæslustöðin mun rísa, þ.e. á horni Byggðavegar og Þingvallastrætis. Nýja heilsugæslustöðin verður því ekki við Þórunnarstræti þó iðulega sé rætt um hana á þann veg þar sem hún rís að hluta á tjaldsvæðisreitnum „við Þórunnarstræti“.


Sjálfur tjaldsvæðisreiturinn fer ekki nema að litlu leyti undir heilsugæslustöðina sem ætlunin er að taki til starfa í ársbyrjun 2026. Hún mun að mestu rísa á núverandi bílastæði við gatnamót Þingvallastrætis og Byggðavegar, að baki trjánna vinstra megin á þessari mynd og ná aðeins inn á núverandi grassvæði. Þjónustuhús tjaldsvæðisins sem sést fyrir miðri mynd mun víkja. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Nýja heilsugæslustöðin er sem stendur í albútboði sem felur í sér allt ferlið eins og nafnið gefur til kynna, frá hönnun til lokafrágangs, og segir Jón Helgi að fyrirtæki hafi lýst áhuga á að taka þátt í því útboði. Reikna má með að skriður komist á hönnun og undirbúning þeirrar stöðvar síðar á árinu þegar niðurstöður útboðs liggja fyrir og segir Jón Helgi ekkert benda til annars en að áætlanir um að taka þá stöð í notkun 1. janúar 2026 muni standast.

Myglan breytti skipulaginu

Ástand þess húsnæðis í miðbænum sem meginhluti heilsugæslustöðvarinnar er starfræktur í nú hefur haft áhrif á skipulag flutninga starfseminnar í stöðina sem er í byggingu í Sunnuhlíð, eins og sagt var frá í frétt hér á Akureyri.net fyrr í sumar.


Framkvæmdir í Sunnuhlíðinni ganga samkvæmt áætlun. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Jóh Helgi segir reiknað með að HSN nýti tímabundið meira af húsnæði í Linduhúsinu svokallaða, að Hvannavöllum 14, þar sem sálfélagsleg þjónusta og geðheilsuteymi eru staðsett núna. Þegar fram líða stundir og báðar stöðvarnar, við Sunnuhlíð og Þingvallastræti, verða komnar í rekstur verður öll starfsemi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Akureyri innan veggja þessara tveggja stöðva.

Áætlanir um að flytja inn í nýja húsnæðið í Sunnuhlíð um áramótin munu standast og ekkert sem ætti að koma í veg fyrir að starfsemi heilsugæslustöðvarinnar fari af stað þar í upphafi næsta árs, að sögn Jóns Helga Björnssonar, forstjóra HSN.