Fara í efni
Fréttir

Heilsugæslustöðin norðan Glerár verður í Sunnuhlíð

Verslunarmiðstöðin Sunnuhlíð. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Verslunarmiðstöðin Sunnuhlíð. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Ákveðið hefur verið að heilsugæslustöðin norðan Glerár verði í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð. Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) staðfestir fyrirspurn Akureyri.net þess efnis – orðar það reyndar þannig að líkurnar séu 95% því ekki sé búið að undirrita samninga og enn sé verið að sannreyna einhver atriði.

Heilsugæslustöð Akureyringa hefur í fjöldamörg ár verið í miðbænum, þar sem aðgengi þykir alls ekki viðunandi. Langt er síðan ákveðið var að koma upp heilsugæslu beggja vegna Glerár; að stöðvarnar yrðu tvær í stað þeirrar gömlu. Ákveðið hafði verið að nyrðri stöðin yrði á horni Skarðshliðar og Undirhlíðar en snemma á síðasta ári ákvað bæjarráð Akureyrar að fleiri kostir yrðu skoðaðir.

Öll efri hæðin og viðbygging

„Það var auglýst eftir húsnæði undir heilsugæsluna, mér skilst að átta hafi sýnt áhuga en tilboð fasteignafélagsins Regins, eiganda Sunnuhlíðar, var það sem Framkvæmdasýslunni - Ríkiseignum leist best á,“ segir Jón Helgi við Akureyri.net.

Heilsugæslustöðin verður á nánast allri efri hæð hússins. Byggt verður við Sunnuhlíð til norðurs og heilsugæslan fær um 1.700 fermetra til umráða. „Það stendur til að taka húsnæðið í gegn; hreinsa allt út úr efri hæðinni, endurnýja allar lagnir og stækka glugga. Þeir hjá Regin eru tiltölulega vanir að taka eldra húsnæði í gegn og endurskapa. Við höfum fram að þessu verið að sannreyna að starsfemin muni komast fyrir svo vel sé og fyrstu teikningar sýna að hún geri það,“ segir Jón Helgi. 

Mikið fagnaðarefni

Forstjóranum líst vel á að starfsemin flytjist í Sunnuhlíð. „Við vorum ekki mjög áhugasöm til að byrja með en þegar við fengum kynningu á því hvernig þeir ætla að standa að þessu urðum við tiltölulega jákvæð á verkefnið. Það tikkar í flest þau box sem við lögðum áherslu á,“ segir Jón. „Því er ekki að neita að staðsetningin hefur þann kost að vera miðsvæðis og það er mikið fagnaðarefni að fá sérhannað húsnæði fyrir starfsemina, gott aðgengi fyrir íbúa og góða starfsaðstöðu fyrir starfsfólk heilsugæslunnar.“

Nærþjónusta

Jón er afar ánægður með að nú hylli undir að tvær heilsugæslustöðvar verði að veruleika í bænum. Annað veifið hefur borið á því í almennri umræðu að óþarfi sé að stöðvarnar verði tvær. Það hljóti til dæmis að vera mun dýrara en að reka eina stöð. Hver eru rökin fyrir því að  starfsemi HSN verði á tveimur á stöðum í bænum?

Jón Helgi svarar því: „Við lítum á heilsugæslu sem nærþjónustu og teljum að betra sé að færa hana nær íbúunum. Þetta er heppilegt fyrir vaxandi bæ og samfélag. Það væri örugglega mjög hagkvæmt að vera með einn barnaskóla í bænum en ég held að engum detti það í hug!  Ég held að sömu rök séu fyrir heilsugæslustöðvunum og skólunum.“

Gert er ráð fyrir því að húsnæðið í Sunnuhlíð verði tilbúið fyrir heilsugæsluna á næsta ári – sumarið eða haustið 2023. Nokkuð er síðan ákveðið var að heilsugæslustöðin sunnan Glerár yrði á horni Byggðavegar og Þingvallastrætis, norðan við gamla tjaldstæðið. Reist verður hús undir starfsemina og er alútboð í undirbúningi vegna þeirrar framkvæmdar. Reiknað er með að heilsugæslan flytjist þangað árið 2024, að sögn Jóns Helga.

  • Að ofan: Tillögumynd að viðbyggingunni til norðurs.

Verslunarmiðstöðin Sunnuhlíð er steinsnar frá Glerárskóla, sem er efst til hægri á myndinni, og félagssvæði íþróttafélagsins Þórs. Byggt verður við verslunarmiðstöðinni til norðurs, þar sem rauði hringurinn er. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.