Fara í efni
Fréttir

Heilbrigðisnefnd átelur sinnuleysi bæjarins

„Þetta er í raun óboðlegt ástand og mikilvægt að það sé tekið föstum tökum og ráðist gegn rótum vandans,“ segir meðal annars í ályktun heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra átelur sinnuleysi bæjaryfirvalda á Akureyri gagnvart svifryksvandanum, sem er verulegur og alvarlegur. Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar þann 20. nóvember. Bæjarráð Akureyrar kveðst taka málið alvarlega.

Nefndin bendir á að þann 20. september hafi hún bent á að í hönd færi sá tími þar sem búast mætti við að styrkur svifryks færi yfir viðmiðunarmörk. Því væri mikilvægt að ljúka uppsetningu á nýjum loftgæðmælum og endurskoðun verklagsreglna gegn svifryki sem allra fyrst. Hvorugu þessara verkefna sé lokið og hafi styrkur svifryks í haust ítrekað mælst yfir viðmiðunarmörkum.

Óvissa og tafir vegna tilfærslu vetrarþjónustu

Einnig vekur nefndin athygli á að Vegagerðin hafi tekið yfir vetrarþjónustu, þ.e. snjómokstur og hálkuvarnir, á götum Vegagerðrinnar innan þéttbýlis á Akureyri, en ekki liggi fyrir hvort aðgerðir til að draga úr svifryki séu þar á meðal. Um miðjan nóvember var sagt frá því í fréttum Ríkisútvarpsins að Umhverfisstofnun muni ekki birta gögn úr nýjum loftgæðamælum sem settir voru upp í byrjun árs hér í bæ þar sem stofnunin telji mælana ekki áreiðanlega og geti þeir því gefið almenningi villandi upplýsingar.

Eini svifryksmælirinn á Akureyri, eða sá eini sem er tekinn alvarlega, er við Strandgötuna skammt austan Glerárgötu. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

„Heilbrigðisnefnd átelur sinnuleysi bæjaryfirvalda á Akureyri gagnvart svifryksvandanum sem er verulegur og alvarlegur. Bent er á að þó haustið sé nýhafið hefur eini mælirinn sem er virkur nú þegar sýnt tölur yfir 500 µg/m³ sem er margfalt yfir því sem hægt er að telja eðlilegt og heilsusamlegt. Þetta er í raun óboðlegt ástand og mikilvægt að það sé tekið föstum tökum og ráðist gegn rótum vandans,“ segir í ályktun nefndarinnar. Þar er ítrekað að tafir hafi orðið á endurskoðun verklagsreglna gegn svifryki og yfirtaka Vegagerðarinnar á vetrarþjónustu hafi aukið óvissu um hver ber ábyrgð á aðgerðum gegn svifryki.

Krafa um aðgerðir strax

„Heilbrigðisnefnd gerir þá kröfu að Akureyrarbær og Vegagerðin ljúki vinnu við verklagsreglur gegn svifryki og hefji vinnu samkvæmt þeim án frekari tafa. Jafnframt óskar nefndin eftir upplýsingum um til hvaða aðgerða Akureyrarbær hyggst grípa varðandi mælingar á svifryki í ljósi frétta um að gögn úr nýlega uppsettum loftgæðamælum muni ekki verða birt á loftgæðavef Umhverfisstofnunnar,“ segir enn fremur í ályktun nefndarinnar.

Fundargerð nefndarinnar var lögð fram til kynningar á fundi bæjrráðs Akureyrarbæjar í liðinni viku og bókaði ráðið eftirfarandi: „Bæjarráð tekur bókun Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra vegna svifryks alvarlega og leggur áherslu á að brugðist sé við þeim. Bæjarráð telur mikilvægt að bæta við áreiðanlegum svifryksmælum og flýta endurskoðun á verklagsreglum vegna loftmengunar. Bæjarráð vísar málinu áfram til umhverfis- og mannvirkjasviðs.“