Fara í efni
Fréttir

Hátæknivinnslan á Dalvík opin almenningi

Ljósmynd: Samherji

Hátæknivinnsluhús Samherja á Dalvík verður opið almenningi fimmtudaginn 21. apríl – sumardaginn fyrsta – frá klukkan 09:00 til 13:00. Vinnsla verður í gangi, þannig að einstakt tækifæri gefst til að sjá þetta magnaða hús, góðan aðbúnað starfsfólks og fullkomnar tæknilausnir sem byggja á nýsköpun og frumkvöðlastarfi, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Fiskvinnsluhúsið er eitt hið fullkomnasta í heiminum í vinnslu bolfisks. Vinnsla hófst í ágúst árið 2020 en vegna heimsfaraldursins hefur það verið svo að segja lokað öðrum en starfsfólki,“ segir í tilkynningunni.

Nýsköpun og frumkvöðlastarf

Framkvæmdir og þróun á búnaði í húsinu, sem er um 9.000 fermetrar, stóðu yfir í um fjögur ár og kostnaðurinn var liðlega sjö milljarðar króna, helmingurinn vegna tækja og búnaðar.

„Tækin í húsinu og hugbúnaðurinn sem stýrir þeim er afrakstur Samherja og fyrirtækjanna sem framleiddu þau. Í reynd er um að ræða nýjar sérhæfðar lausnir sem byggja á nýsköpun og frumkvöðlastarfi.“

Aldrei verið gert áður

Þegar starfsemin hófst formlega í húsinu sagði Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja að sérstaklega hafi verið horft til þess að létta störf starfsfólks.

„Í þessu húsi erum við að gera eitthvað sem aldrei hefur verið gert áður enda göngum við lengra í sjálfvirknivæðingu, sem miðar meðal annars að því að létta störf starfsfólks en þekkst hefur í fiskvinnslu. Við hönnun hússins var horft sérstaklega til þess að gera allan aðbúnað starfsfólks eins og best verður á kosið. Í því samband má meðal annars nefna lýsingu og hljóðvist sem er sérstaklega hönnuð með það fyrir augum að auka þægindi. Við lítum á daginn í dag sem hátíðardag fyrir íslenskan sjávarútveg og íslenskan iðnað,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson.

Eins og fyrr segir, hefur húsið verið svo að segja lokað öðrum en starfsfólki vegna heimsfaraldursins. Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja segir að mjög hafi reynt á samstöðu starfsfólksins á þessum tíma.

„Þetta var vissulega mjög svo krefjandi en hafðist allt saman, þökk sé starfsfólkinu. Við gripum strax til varúðarráðstafana sem höfðu eðlilega takmarkandi áhrif á starfsemina en allt starfsfólkið var samstillt og ég er nokkuð viss um að það réði úrslitum. Núna þegar sóttvarnartakmörkunum hefur loksins verið aflétt getum við loksins sýnt almenningi þessa glæsilegu vinnslu og það er tilhlökkunarefni,“ segir Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja.