Fara í efni
Fréttir

Hafa gefið búnað fyrir 360 milljónir

Hollvinasamtökin færa Sjúkrahúsinu á Akureyri svokallaða ferðafóstru að gjöf 2018. Frá vinstri: Bjar…
Hollvinasamtökin færa Sjúkrahúsinu á Akureyri svokallaða ferðafóstru að gjöf 2018. Frá vinstri: Bjarni Jónasson, forstjóri SAk, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands sem staddur var í heimsókn, og Jóhannes Gunnar Bjarnason, formaður Hollvinasamtakanna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri, sem stofnuð voru í desember árið 2013, hafa gefið stofnuninni tæki og tól fyrir um það bil 360 milljónir króna á þessum sjö árum.

Stofnandi samtakanna var Stefán heitinn Gunnlaugsson og Jóhannes Gunnar Bjarnason, kennari og fyrrverandi bæjarfulltrúi, hefur verið formaður stjórnar frá upphafi. „Stefán tilkynnti mér að ég yrði formaður. Hann óskaði ekki beint eftir því; þannig átti þetta að vera og þá var það þannig. Það var ómögulegt að segja nei við Stefán enda málefnið göfugt og ég stóð í stórri þakkarskuld við spítalann,“ segir Jóhannes við Akureyri.net.

Síðasta starfsár var algjört metár í sögu samtakanna. Þau keyptu þá tæki og tól fyrir hvorki meira né minna en 100 milljónir króna; komust yfir þann merkilega þröskuld þegar keyptur var beinþéttnimælir fyrir áramót.

„Það hjálpaðist allt að; við fengum fullt af styrkjum sem sótt var um, og peningar frá einstaklingum, fyrirtækjum og félagasamtökum voru líka meiri en við höfum fengið áður. Við geymum yfirleitt ekki peningana heldur fjárfestum sem fyrst í einhverjum lækningatækjum fyrir sjúkrahúsið. Svo erum við með tæplega 3000 félagsmenn sem borga árgjald. Það skilar 15 milljónum króna á ári.“

Þegar Jóhannes er spurður um hvað samtökin hafi gefið Sjúkrahúsinu kemur í ljós að listinn er langur. „Skurðborð, gjörgæslurúm, öndunarvélar, rúm á blóðskilunardeild... Það væri sennilega hægt að telja endalaust upp. Ég held að eitthvað sé komið frá okkur á allar deildir spítalans.“

Samtökin hafa aldrei lagt stofnuninni jafn mikið til og á síðasta starfsári, eins og áður kom fram. Er fólk viljugra til að láta fé af hendi rakna en áður?

„Mér finnst jákvæðni fólks mjög mikil og það bregst oft vel við einmitt vegna þess að peningarnir renna til sjúkrahússins okkar; peningarnir fara ekki úr bænum, þetta er sjúkrahús sem fólkið á svæðinu notar og fólk vill oft minnast skyldmenna með því að gefa samtökunum peninga. Sama má segja fyrirtæki og félagasamtök,“ segir Jóhannes.

En hvað stendur upp úr, að hans mati?

„Það er ferðagjörgæsla fyrir nýbura; það er bæði dýrasta tækið sem við höfum keypt og mér þykir vænst um það.“

Eftir metár horfa Jóhannes og hans fólk fram á veginn sem fyrr.

„Árið byrjar mjög vel því ég fékk hringingu nýlega frá einum Lions klúbbanna sem ætla að afhenda okkur peninga seinni hluta mánaðarins. Svo erum við bara með allar klær úti eins og venjulega við að safna styrkjum.“

Jóhannes skynjar gríðarlegt þakklæti frá Akureyringum vegna hins mikla og merkilega starfs Hollvinasamtakanna.

„Ég veit frá fyrstu hendi, því margir hafa sagt mér það, að tækjakaup okkar fyrir sjúkrahúsið hafa skipt gríðarlega miklu máli. Það sem er jákvæðast er tvennt; annars vegar að margir sleppa við það að fara suður í ýmsar skoðanir því nauðsynleg tæki eru komin hingað, hins vegar er auðveldara að ráða lækna til starfa þegar sjúkrahúsið er orðið vel tækjum búið. Þeir vilja ekki ráða sig til starfa á sjúkrahús þar sem ekki eru fullkomin tæki, skiljanlega.“

Viltu skrá þig í Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri? Smelltu HÉR

Desemer 2015; Hollvinasamtökin afhentu geðdeild SAk 10 nýtísku sjúkrarúm á legudeild, gáfu tölvu var á göngudeild geðdeildar og færðu stofnuninni nokkra hægindastóla, sem koma átti fyrir hér og þar á spítalanum. Frá vinstri: Bernard Gerritsma, forstöðuhjúkrunarfræðingur á geðdeild, Sigmundur Sigfússon, forstöðulæknir geðdeildar, Alice Harpa Björgvinsdóttir, framkvæmdastjóri lyflæknigasviðs, Bjarni Jónasson forstjóri, Jóhannes Gunnar Bjarnason formaður Hollvinasamtaka Sjúkrahússins, Stefán Gunnlaugsson, stofnandi samtakanna og Hermann Haraldsson, stjórnarmaður í samtökunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.