Fara í efni
Fréttir

Guðmundur og hjátrú skipstjórans

Guðmundur skipstjóri Jónsson með hanskana og hálsklútinn góða. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fallegir kvenhanskar og forláta hálsklútur vöktu athygli blaðamanns þegar hann lagði leið sína í stýrishúsið á Vilhelm Þorsteinssyni EA, einu skipa Samherja, og hitti skipstjórann Guðmund Þ. Jónsson.

Hanskarnir liggja alltaf á sama stað og klúturinn hangir skammt frá skipstjórastólnum. „Já, ég er svolítið hjátrúarfullur,“ svarar Guðmundur þegar spurt er. „Það hefur einhverra hluta vegna fylgt mér lengi. Ég trúi því að ég fiski betur og okkur gangi betur á allan hátt ef ákveðnir hlutir eru á sínum stað,“ segir hann við Akureyri.net.

Sonja Sif Jóhannsdóttir, sem kannaði fyrir margt löngu heilsufar íslenskra sjómanna og ræddi meðal annars við þá um mataræði, gleymdi hálsklútnum um borð í gamla Vilhelm, þegar Guðmundur var skipstjóri þar og hanskarnir gleymdust líka um borð. Guðmundur vissi aldrei hver átti þá. „Ég sagði Sonju á sínum tíma að hún fengi klútinn aldrei aftur!“ segir Guðmundur og hlær. Skipstjórinn trúði því um leið og hann sá klútinn að hann boðaði gott og var ákveðinn í að láta hann aldrei af hendi. „En ég keypti auðvitað handa henni annan!“

Guðmundur bætir því svo við að hluti af hjátrúnni sé að hann komi alltaf með ákveðna hluti með sér um borð þegar haldið er til veiða og hafi gert í mörg ár. „Börnin mín gáfu mér oft gjafir áður en ég fór á sjó og dóttir mín, sem nú er 38 ára, gaf mér einu sinni lítið lukkubein sem hún gerði í skólanum. Það er alltaf í sjótöskunni minni. Svo hafa barnabörnin gefið mér ýmislegt sem fylgir mér alltaf.“