Fara í efni
Fréttir

Greitt fyrir að nota vistvæna ferðamáta?

Bæjaryfirvöld vilja gera samgöngusamninga við starfsmenn sveitarfélagsins með það að markmiði að stuðla að vistvænni lífsstíl, bæta líðan og hvetja til þess að starfsfólk ferðist til og frá vinnu með öðrum hætti en á einkabílnum.

  • Reykjavíkurborg gerði slíkan samning við starfsfólk árið 2017; hver starfsmaður í 50% til 100% starfi getur fengið 6.000 kr. greiðslu á mánuði, 72.000 kr. á ári, en þeir sem eru í 33% til 49% starfi 3.000 kr. á mánuði, alls 36.000 kr. á ári.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti samhljóða í gær tillögu Hildu Jönu Gísladóttur, oddvita Samfylkingarinnar, þess efnis að áhugi væri á því að „taka fyrstu skrefin við innleiðingu samgöngusamninga við starfsmenn sveitarfélagsins á árinu 2024.“

Markmiðið er skv. tillögunni „að stuðla að vistvænni lífsstíl, bæta líðan og hvetja til þess að starfsfólk ferðist til og frá vinnu með öðrum hætti en á einkabílnum. Samgöngusamningarnir verði hluti af aðgerðaráætlun umhverfis- og loftslagsstefnu sem nú þegar er í vinnslu. Mannauðs- og fjársýslusviði er falið að leggja fram tillögur að sviðsmyndum við innleiðingu samgöngusamninga og kostnaði við þá. Bæjarstjórn taki að lokum afstöðu til þess hvaða sviðsmynd henti og gert verði ráð fyrir kostnaðinum við gerð fjárhagsáætlunar árið 2024.“

Fjölbreytt og jákvæð áhrif

„Nú mun mannauðs- og fjársýslusvið Akureyrarbæjar útfæra tillögur á því hvernig fyrirkomulagið gæti verið hjá Akureyrarbæ. Það skiptir töluverðu máli að vanda vel til verka, þannig að verkefnið takist vel til, auk þess sem mikilvægt er að greina kostnaðinn,“ segir Hilda Jana við Akureyri.net.

„Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni og bind miklar vonir við að þarna verði um frábært verkefni að ræða sem öll verði ánægð með. Ávinningurinn af því að koma á samgöngusamningum gæti, ef vel tekst til, stuðlað að því að fleira starfsfólk nýti vistvæna og hagkvæma ferðamáta sem getur haft fjölbreytt og jákvæð áhrif svo sem að draga úr mengun frá útblæstri, draga úr svifryksmengun, bæta heilsu og líðan og bæta kjör starfsfólks. Þónokkur fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög hafa nú þegar komið slíkum samningum á. Samgöngusamningar hafa  til að mynda verið teknir upp hjá Norðurorku, en í þeim samningum felst að starfsmaður fær samgöngustyrk, enda komi hann til vinnu á umhverfisvænan hátt, gangandi, hjólandi eða með almenningsamgöngum tiltekinn lágmark dagafjölda í mánuði.“