Fara í efni
Fréttir

Gögn úr svifryksmælum verði aðgengileg

Mælitæki við Strandgötuna, gegnt Hofi. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra segir mikilvægi verklagsreglna um aðgerðir gegn loftmengun þegar hafa sýnt sig og að mikilvægt sé að sendar séu út viðvaranir til íbúa þegar fyrirséð er að styrkur svifryks fari yfir viðmiðunarmörk. Nefndin ítrekar fyrri bókanir um að gögn úr svifryksmælum í eigu Akureyrarbæjar verði gerð aðgengileg.

Heilbrigðisnefndin bókaði eftirfarandi á fundi sínum fyrr í mánuðinum um svifryk á Akureyri:

Það sem af er ári hefur sólarhringsmeðaltal svifryks einu sinni farið yfir heilsuverndarmörk sem eru 50 µg/m3 en þann 15. janúar fór styrkur svifryks hæst í 411 µg/m3 kl. 5 síðdegis og sólarhringsmeðaltalið mældist 92,9 µg/m3. Þann sama dag sendi Akureyrarbær frá sér viðvörun í samræmi við nýlega samþykktar verklagsreglur um aðgerðir gegn loftmengun utandyra. Ekki var talið ráðlagt að rykbinda götur þann dag vegna mikils frosts. Að mati heilbrigðisnefndar hefur mikilvægi verklagsreglnanna þegar komið í ljós en afar mikilvægt er að sendar séu út viðvaranir til íbúa þegar fyrirséð er að styrkur svifryks fari yfir viðmiðunarmörk. Þá ítrekar nefndin fyrri bókanir um að gögn úr svifryksmælum í eigu Akureyrarbæjar verði gerð aðgengileg þannig hægt verði að fylgjast með svifryksmengun víðar í bænum.