Fara í efni
Fréttir

Geðþjónustu við ungt fólk verði ekki breytt

Stjórn Geðverndarfélags Akureyrar lýsir þungum áhyggjum vegna fyrirhugaðra breytinga á þjónustu við börn og ungmenni sem eru að glíma við geðraskanir á Norður- og Austurlandi og tekur heils hugar undir ályktun Geðhjálpar þar að lútandi.
 
Tilkynnt hefur verið að þjónusta sem barna- og unglingageðteymi hefur veitt á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) verði færð til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) 1. október nk. með það að markmiði að efla þjónustu og samfellu í geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni á Norður - og Austurlandi undir hatti HSN.
 
„Rétt má vera að geðþjónusta við börn og ungmenni hjá HSN eflist að einhverju leyti við þessa tilfærslu. Hlutverk HSN er þó fyrst og fremst að veita geðþjónustu á fyrsta og öðru stigi geðræns vanda, þ.e. þegar geðrænn vandi er vægur eða miðlungs mikill,“ segir stjórn Geðverndarfélags Akureyri.  
 
Skert geðþjónusta
 
„Því miður þýðir þessi tilfærsla þó að sú þjónusta sem BUG teymi SAk hefur hingað til veitt börnum og ungmennum með þungan og flókinn geðrænan vanda (þriðja stigs vanda) verður tæpast lengur í boði. Þessi tilfærsla þýðir því skerta geðþjónustu fyrir börn og ungmenni með slíkan vanda á Norður- og Austurlandi. Tilvísunum í þriðja stigs þjónustu hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) mun fjölga og þetta mun valda auknu álagi og kostnaði fyrir fjölskyldur sem þurfa að sækja þjónustuna á höfuðborgarsvæðið.“
 
Stjórn Geðverndarfélags Akureyrar segir það vekja undrun að stjórnendur SAk skuli taka þessa ákvörðun þegar haft sé í huga að stofnunin fékk aukið framlag vegna BUG teymisins til þriggja ára skv. ársskýrslu SAk fyrir árið 2023. Ákvörðunin veki einnig undrun þar sem hún sé ekki í takti við metnaðarfull áform um geðþjónustu í væntanlegri nýbyggingu sjúkrahússins.
 
Skorað er á stjórn SAk að draga til baka uppsagnir starfsfólks BUG-teymisins. Auk þess er skorað á heilbrigðisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, sem og ráðherra og þingmenn Norðaustur- og Norðvesturkjördæmis að beita sér í þessu máli „og koma í veg fyrir að þriðja stigs geðþjónusta fyrir börn og ungmenni með þungan og flókinn geðrænan vanda leggist af á Norður- og Austurlandi.“
 
Smellið hér til að lesa alla áskorun stjórnar Geðverndarfélagsins