Fara í efni
Umræðan

Áskorun vegna breytinga á geðþjónustu

Áskorun vegna fyrirhugaðra breytinga á geðþjónustu við börn unglinga á Norður- og Austurlandi
 
Stjórn Geðverndarfélags Akureyrar lýsir þungum áhyggjum af fyrirhugðum breytingum á þjónustu við börn og ungmenni sem eru að glíma við geðraskanir á Norður- og Austurlandi og tekur heils hugar undir ályktun Geðhjálpar þar að lútandi.
 
Tilkynnt hefur verið að sú þjónusta sem barna- og unglingageðteymi hefur veitt á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) verði færð yfir til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) 1. október nk.
 
Í tilkynningu frá SAk kemur fram að markmiðið með þessari tilfærslu sé að efla þjónustu og samfellu í geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni á Norður - og Austurlandi undir hatti HSN.
 
Rétt má vera að geðþjónusta við börn og ungmenni hjá HSN eflist að einhverju leyti við þessa tilfærslu. Hlutverk HSN er þó fyrst og fremst að veita geðþjónustu á fyrsta og öðru stigi geðræns vanda, þ.e. þegar geðrænn vandi er vægur eða miðlungs mikill. (Sjá skýrsluna Rétt geðheilbrigðisþjónusta á réttum stað).
 
Því miður þýðir þessi tilfærsla þó að sú þjónusta sem BUG teymi SAk hefur hingað til veitt börnum og ungmennum með þungan og flókinn geðrænan vanda (þriðja stigs vanda) verður tæpast lengur í boði. Þessi tilfærsla þýðir því skerta geðþjónustu fyrir börn og ungmenni með slíkan vanda á Norður- og Austurlandi. Tilvísunum í þriðja stigs þjónustu hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans (BUGL) mun fjölga og þetta mun valda auknu álagi og kostnaði fyrir fjölskyldur sem þurfa að sækja þjónustuna á höfuðborgarsvæðið.
 
Í tilkynningu frá SAk kemur einnig fram að SAk muni eftir sem áður sinna bráðaþjónustu fyrir börn og unglinga á svæðinu í samstarfi við HSN. Ekki kemur fram hvernig þessari bráðaþjónustu verði háttað en ljóst má vera að bráðaþjónusta kemur engan veginn í stað núverandi þjónustu BUG teymis SAk.
 
Það vekur undrun að stjórnendur SAk skuli taka þessa ákvörðun ef haft er í huga að stofnunin fékk aukið framlag vegna BUG teymisins til þriggja ára skv. ársskýrslu SAk fyrir árið 2023.
 
Þessi ákvörðun vekur einnig undrun þar sem hún er ekki í takti við metnaðarfull áform um geðþjónustu í væntanlegri nýbyggingu sjúkrahússins.
 
Stjórn GVA skorar á stjórnendur SAk að draga til baka uppsagnir starfsfólks BUG-teymisins, hverfa frá þessari óheillabraut og huga frekar að því að efla þriðja stigs geðþjónustu fyrir börn og unglinga á Norður- og Austurlandi.
Stjórn GVA skorar á heilbrigðisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, sem og ráðherra og þingmenn Norðaustur- og Norðvesturkjördæmis að beita sér í þessu máli og koma í veg fyrir að þriðja stigs geðþjónusta fyrir börn og ungmenni með þungan og flókinn geðrænan vanda leggist af á Norður- og Austurlandi.
 
Stjórn Geðverndarfélags Akureyrar

Nýja viðbyggingin við SAk

Hjörleifur Hallgríms Herbertsson skrifar
10. júlí 2024 | kl. 17:45

KS og Kjarnafæði Norðlenska

Gísli Sigurgeirsson skrifar
09. júlí 2024 | kl. 14:05

Ályktun Geðhjálpar vegna breytinga á þjónustu

Stjórn Geðhjálpar skrifar
06. júlí 2024 | kl. 06:00

Yfirlýsing varðandi breytingar á leikskólagjöldum

Anna Júlíusdóttir skrifar
05. júlí 2024 | kl. 11:45

Opið bréf til forseta Íslands

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
04. júlí 2024 | kl. 11:00

Ósanngjörn kerfisbreyting

Anna Júlíusdóttir skrifar
04. júlí 2024 | kl. 08:00