Fara í efni
Fréttir

Geðræktarverkefni MA styrkt af Sprotasjóði

Styrkþegar við úthlutun úr Sprotasjóði í mennta- og barnamálaráðuneytinu í gær. Mynd: Stjórnarráðið.

Úthlutun úr Sprotasjóði leik-, grunn- og framhaldsskóla fór fram í mennta- og barnamálaráðuneytinu í vikunni. Verkefni MA, Geðrækt í MA - Bjargráðin 5, er á meðal þeirra verkefna sem fengu styrk úr sjóðnum. Þrjú verkefni á Akureyri fengu styrk úr sjóðnum að þessu sinni.

  • Menntaskólinn á Akureyri: Geðrækt í MA - Bjargráðin 5
  • Akureyrarbær, fræðslu- og lýðheilsusvið: Bætt verklag í baráttu við skólaforðun
  • Oddeyrarskóli: Bætt líðan - aukin fræðsla

Áherslur Sprotasjóðs á þessu ári eru þrenns konar. Í fyrsta lagi er það farsæld barna og ungmenna með áherslu á geðrækt, geðtengsl og geðheilbrigði. Annar áhersluþáttur er sköpun og hönnun og sá þriðji er stafræn borgarvitund, upplýsinga- og miðlalæsi. 


Kristín Elva Viðarsdóttir, verkefnisstjóri geðræktarverkefnisins Geðrækt í MA - Bjargráðin 5 og skólasálfræðingur MA. Mynd: MA.

Leita leiða til að styrkja og styðja nemendur

Kristín Elva Viðarsdóttir, skólasálfræðingur MA, er verkefnisstjóri geðræktarverkefnisins í MA. Hún segir undirbúning verkefnisins hefjast núna á vordögum og það síðan keyrt í gang í haust. „Við í stoðteymi MA erum mjög spenntar að hefja þetta verkefni. Við erum alltaf að reyna að finna leiðir til að styrkja og styðja okkar nemendahóp enn frekar,“ segir Kristín Elva, en hún hefur reynslu af slíkri verkefnastjórn, til dæmis með innleiðingu núvitundar í Giljaskóla á sínum tíma. 

Markmiðin með verkefninu eru að...

  • finna og styrkja þá nemendur sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að tengjast skólafélögunum og nýta sér það félagslíf sem í boði er í skólanum,
  • koma á fót ýmsum úrræðum – og styrkja þau sem fyrir eru í skólanum– fyrir nemendur sem upplifa einmanakennd og eru þess vegna í brottfallshættu,
  • auka samheldni bekkjareininga og góð samskipti í bekkjum. Slíkt er öflug forvörn gegn einmanakennd og eitruðum samskiptum,
  • auka meðvitund nemenda sem eru í forsvari félagslífs og stjórna í félögum nemenda á mikilvægi þess að viðburðir á vegum þess séu ekki útilokandi fyrir einhvern hóp nemenda og hafi það að markmiði að stuðla að velferð allra nemenda í skólanum og bæta menningu og samskipti innan skólans,
  • innan skólans sé hægt að finna skjól í áreiti hins daglega lífs og byggja sig upp,
  • þjálfa nemendur í seiglu, lausnamiðaðri hugsun og trú á eigin getu.