Fara í efni
Fréttir

Geðhjálp hefur áhyggjur af breytingunum

Stjórn landssamtakanna Geðhjálpar hefur áhyggjur af fyrirhuguðum breytingum á þjónustu við börn og ungmenni sem eru að glíma við geðrænar áskoranir á Norður- og Austurlandi. Þetta kemur fram í ályktun sem stjórnin sendi frá sér í gær.

Tilkynnt var í vikunni að þjónusta sem barna- og unglingageðteymi (BUG) hefur veitt á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) færist til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) frá og með 1. október næstkomandi. Fram kom að markmiðið með tilfærslunni væri að efla þjónustu og samfellu í geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni á Norður- og Austurlandi undir hatti HSN.

Í ályktun stjórnar Geðhjálpar kemur fram að fagfólk og aðstandendur séu því ekki sammála því að breytingin muni efla þjónustu og samfellu „enda er verið að slíta í sundur starf sem hefur verið í þróun á Akureyri frá því að eini barnageðlæknirinn í föstu starfi við sjúkrahúsið lét þar af störfum fyrir 10 árum.

Stjórn Geðhjálpar skorar á stjórnvöld að hugsa um heildarmyndina „þegar sendar eru sparnaðarkröfur á heilbrigðisstofnanir í kringum landið. Skipulagsbreytingar, sem hafa í för með sér samdrátt í þjónustu, auka ekki samfellu í þjónustu og það þjónar engum að halda slíku fram,“ segir í ályktuninni.

Smellið hér til að lesa yfirlýsingu stjórnar Geðhjálpar