Fara í efni
Fréttir

Gæslan: Föst viðvera á Akureyri yrði bylting

Myndir: Skapti Hallgrímsson

Landhelgisgæsla Íslands telur að föst starfsstöð björgunarþyrlu á Akureyri yrði „stórt framfararskref í viðbragðs, öryggis, eftirlits- og björgunarmálum þjóðarinnar“ og stjórnendur Gæslunnar eru sannfærðir um að „föst viðvera þyrlusveitarinnar á Akureyri yrði bylting í björgunar-/ sjúkraflugs og eftirlitsgetu stofnunarinnar.“

Þetta segir í umsögn stofnunarinnar sem send var Alþingi í síðasta mánuði, um tillögu til þingsályktunar um fasta starfsstöð þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Forsætisráðherra sagði á fundi í morgun að til stæði að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar yrði staðsett á Akureyri og forstjóri Gæslunnar sagði við Akureyri.net í kjölfarið að stofnunin myndi skoða næstu skref með stjórnvöldum.

Fyrri fréttir dagsins um málið:

Fróðlegt er að rýna í umsögn Gæslunnar til Alþingis vegna þingsályktunartillögunnar. Þar segir:

  • Landhelgisgæsla Íslands telur að föst starfsstöð björgunarþyrlu á Akureyri yrði stórt framfararskref í viðbragðs, öryggis, eftirlits- og björgunarmálum þjóðarinnar.
  • Með því myndi neyðar-, sjúkraflutnings-, og viðbragðsgeta við íbúa Vestfjarða, Norður- og Austurlands og sjómenn stóraukast. Einnig myndi þjónusta við ferðamenn á hálendinu batna til muna.
  • Landhelgisgæslan bendir enn fremur á að aukin viðbragðsgeta myndi styrkja getu stofnunarinnar til að sinna öryggis- og varnartengdum verkefnum.
  • Landhelgisgæslan telur rétt að nefna að kostnaður vegna verkefnisins veltur á kröfum um þjónustustig, því þurfi að liggja fyrir frekari forsendur um það hvert þjónustustigið á að vera við mat á mögulegum kostnaði.

  • Til þess að hægt sé að tryggja viðbragðsgetu allan sólarhringinn þyrfti að lágmarki að bæta við einni þyrluáhöfn, við þær sem eru starfandi í dag hjá stofnuninni, með tilheyrandi launa- og  þjálfunarkostnaði auk kostnaðar við viðbótarflugtíma til að uppfylla kröfur um þjálfun og hæfni hvers áhafnarmeðlims.
  • Gera má ráð fyrir að kostnaður við eina þyrluáhöfn sé um 500 milljónir króna á ári (laun, þjálfun, flugtímar og viðhald vegna þeirra) eins og kom raunar fram í frétt Akureyri.net í ágúst árið 2023.
  • Sé ætlunin að þyrlusveit Landhelgisgæslunnar geti haft fasta starfsstöð á Akureyri þarf auk þess að tryggja að stofnunin hafi aðstöðu fyrir þyrluna og þyrlusveitina á Akureyrarflugvelli.
  • Landhelgisgæslan bendir á að núverandi læknar þyrlusveitarinnar eru starfsmenn Landspítalans í Reykjavík og að kanna þyrfti hvort einnig sé hægt að fá lækna á Norðurlandi til að annast útköll með þyrlusveitinni.
  • Gera þarf kostnaðargreiningu sérstaklega vegna verkefnisins til að fá kostnað á hreint, en ljóst er að verulegur viðbótarkostnaður fylgir því að vera með þyrlur staðsettar á fleiri en einum stað, að teknu tilliti til alls frá fjölgun áhafna að viðhaldsmálum og aðstöðu. Mikilvægt er að fjármagn vegna slíks viðbótarkostnaðar sé tryggt.
  • Stjórnendur Landhelgisgæslunnar eru sannfærðir umföst viðvera þyrlusveitarinnar á Akureyri yrði bylting í björgunar-/ sjúkraflugs og eftirlitsgetu stofnunarinnar.
  • Með slíku fyrirkomulagi væri unnt að ná til allra landshluta með þyrlu á innan við 90 mínútum á hefðbundnum degi auk þess sem björgunarviðbragð á norður-, austurmiðum og hálendinu myndi styrkjast verulega.