Til stendur að þyrla verði á Akureyri

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, segir standa til að ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar verði staðsett á Akureyri og hún styðji það heilshugar. Þetta kom fram á morgunarverðarfundi sem Kristrún og Logi Einarsson, 1. þingmaður kjördæmisins og menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, buðu til á Akureyrarflugvelli í morgun.
„Það er búið að samþykkja frambúðar viðbótarfjárveitingu til Landhelgisgæslunnar sem getur meðal annars farið í að fjármagna viðveru áhafna, þannig að það sé hægt að vera með þyrluna staðsetta sér,“ sagði Kristrún á fundinum.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra á fundinum á Akureyrarflugvelli í morgun. Mynd: Rakel Hinriksdóttir
„Þetta er risastórt öryggismál, þetta er okkar framlag í alla þessa öryggismálaumræðu,“ sagði forsætisráðherra. Kristrún nefndi að margir hefðu áhyggjur af því að aukin umræða um varnir þýddi að stofna ætti til nýrra útgjalda á nýjum sviðum „en við erum fyrst og fremst að fara að styrkja núverandi viðbragð. Þar er Landhelgisgæslan ofboðslega sterk, við höfum ofboðslega góða sögu varðandi leit og björgun til að mynda, þannig að þarna eru líka tækifæri til að styrkja innviði,“ sagði forsætisráðherra og bætti við: „Þannig að það stendur til að gera þetta. Ég styð þetta heilshugar.“
„Þetta er hægt“
Það var Steinunn María Sveinsdóttir, safnstjóri Flugsafns Íslands á Akureyrarflugvelli, sem spurði ráðherrana um þyrlumálið. Hún benti á að einu þyrlur Landhelgisgæslunnar sem væru á Akureyrarflugvelli væri á safninu hjá henni – og ekki í flughæfu ástandi! „Það var reynt á síðasta ári að koma þyrlu hingað; það er hægt – [varðskipið] Freyja er úti á Siglufirði, í mínum heimabæ, það er hægt að dreifa því viðbragði og það sama gildir um þyrlurnar.“
Hún spurði því beint: „Ætlið þið að beita ykkur fyrir því að dreifa þessu viðbragði? Svæðið sem þyrlur þjóna er mjög stórt, það er ekki bara landið sjálft heldur líka miðin? Nú heyrast fréttir af því að strandveiðibátar séu í vandræðum í kringum landið, viðbragðið er á suðvestur horninu og viðbragðstíminn er allt of langur.“