Gæslan skoðar næstu skref með stjórnvöldum

Landhelgisgæslan telur mikilvægt að ein þyrla hennar hafi aðsetur á Akureyri en hefur ekki fengið fjármagn til þess á undanförnum árum, að sögn forstjóra stofnunarinnar. Forsætisráðherra sagði í morgun að til standi að ein þyrla verði staðsett á Akureyri og forstjóri Gæslunnar segir að stofnunin muni skoða næstu skref í samráði við stjórnvöld.
Forsætisráðherra sagði í morgun, eins og Akureyri.net greindi frá fyrir hádegi, að búið sé að samþykkja frambúðar viðbótarfjárveitingu til Gæslunnar sem geti m.a. farið í að fjármagna viðveru áhafna, þannig að hægt sé að hafa þyrlu á Akureyri og hún styðji það heilshugar.
- Frétt Akureyri.net í morgun: Til stendur að þyrla verði á Akureyri
Akureyri.net leitaði viðbragða Georgs Kr. Lárussonar, forstjóra Landhelgisgæslunnar, við ummælum forsætisráðherra og fékk eftirfarandi skriflegt svar.
„Landhelgisgæslan hefur á undanförnum árum talað fyrir mikilvægi þess að ein af þyrlum stofnunarinnar hafi aðsetur á Akureyri en fjármagn hefur hingað til ekki fengist til slíkrar útgerðar. Eins og forsætisráðherra bendir á er um brýnt öryggismál að ræða. Með því að staðsetja eina af þyrlum Landhelgisgæslunnar á Akureyri er unnt að bæta viðbragsgetu þyrlusveitarinnar á norðan- og norðaustanverðu landinu og á hálendinu. Eins og gefur að skilja þarf nokkur undirbúningur að eiga sér stað áður en hægt er að að fara út í slíka ráðstöfun auk þess sem tryggja þarf að fullnægjandi aðstaða sé til staðar. Landhelgisgæslan mun skoða næstu skref í samráði við stjórnvöld.“
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands.