Fara í efni
Fréttir

„Fullkomið tómlæti“ lengi en ríkið hefur samþykkt að borga

„Fullkomið tómlæti“ lengi en ríkið hefur samþykkt að borga

Heilbrigðisráðuneytið hefur fallist á að greiða stóran hluta nauðsynlegra framkvæmda til að bæta eldvarnir á öldrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Þetta segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri í samtali við Akureyri.net

Slökkviliðið á Akureyri benti nýverið á að eldvörnum væri „verulega ábótavant“ og lokun húsnæðisins væri yfirvofandi yrði ekki brugðist við fyrir 25. febrúar. Ekki liggur endanlega fyrir hvað framkvæmdirnar kosta.

Um er að ræða elsta hluta hússins Austurbyggðar 17, þann hluta heimilisins sem nefndur er Austurhlíð. Fram hefur komið að slökkviliðið gerði úttekt á brunavörnum í húsnæðinu snemma árs 2019 en þrátt fyrir athugasemdir hafi ekki mikið breyst.

„Ástæða þess að ekki hefur verið farið út í mjög dýrar aðgerðir er að hluta til sú að til stóð að flytja starfsemi úr elsta hluta hússins – Austurhlíð – yfir í nýtt hjúkrunarheimili sem átti að vera byrjað að byggja við Lögmannshlíð, en er reyndar ekki byrjað á. Það er í þessum elsta hluta Hlíðar sem athugasemdir eru gerðir við eldvarnir,“ segir bæjarstjórinn og leggur áherslu á að ekki sé um að ræða allt húsið, eins og sumir kunni að halda.

Einnig hefur bærinn staðið í stappi við ríkisvaldið, sem á 85% húsnæðisins, um að það greiði sinn hluta nauðsynlegra framkvæmda. „Við höfum lengi reynt að fá það á hreint hver borgi fyrir framkvæmdirnar en höfum mætt fullkomnu tómlæti frá ríkinu þangað til núna; nú hefur ríkið samþykkt að borga sinn hlut í framkvæmdunum, það er jákvætt og við fögnuð því,“ segir Ásthildur.

Bæjarstjórinn segir að allt verði gert sem nauðsynlegt sé; vinna sé þegar hafin við ýmis smærri verkefni og unnið sé að undirbúningi fyrir stærri og dýrari framkvæmdir svo sem loftræstikerfi og eldvarnarhólf. „Ríkið mun greiða 85% og sveitarfélagið 15%, eins og skiptingin á að vera í svona stórum framkvæmdum,“ segir Ásthildur.

Hóta að loka Hlíð vegna ófullnægjandi brunavarna

Heilsuvernd: brunavarnir í ólagi 2019 og ástandið eins nú – bærinn komi þeim í lag

Bæjaryfirvöld: ráðist verði í úrbætur á Hlíð hið fyrsta