Fara í efni
Fréttir

Framkvæmdir á KA-svæðinu á áætlun

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Framkvæmdir við uppbyggingu íþróttamannvirkja á félagssvæði KA ganga samkvæmt áætlun og núna er stúkumannvirkið að taka á sig mynd. Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, segir að stefnt sé að því að ná að spila einhverja leiki á nýja vellinum strax á næsta ári, þótt formleg verklok séu ekki áætluð fyrr en sumarið 2027.

„Við förum að sjá aðeins meira að gerast á næstu vikum og mánuðum en bara grunn,“ segir Sævar. Í nóvember er von á einingum til að loka stúkunni og Sævar segir að hún muni þá lokast mjög hratt. Svo veltur það á tíðarfarinu í vetur hversu langt er hægt að komast með verkið. Aðspurður um hvort KA reikni með að geta farið að spila á nýja vellinum næsta sumar og hleypa áhorfendum í nýju stúkuna segist Sævar gera sér vonir um það. „Stúkan verður væntanlega komin upp næsta sumar, með sætum og öðru og við gerum ráð fyrir að við munum spila einhverja leiki á nýja vellinum á næsta ári,“ segir Sævar en bætir við að einnig þurfi að taka tillit til hvort nýir búningsklefar og annað sem þarf að fylgja með verði klárt. 

Áhorfendastúkan við nýjan keppnisvöll KA rúmar 1.000 manns í sæti og er yfirbyggð.

Ef allar áætlanir ganga eftir verður þetta nýja svæði að fullu tilbúið þann 1. júlí 2027, með öllum frágangi. Auk gervigrasvallar og 1.000 áhorfenda stúku bætist við margs konar félagsaðstaða vegna starfsemi KA og það verður sannarlega gríðarleg lyftistöng fyrir starfsemi félagsins, því aukin umsvif og vaxandi iðkendafjöldi kalla á stærri og betri aðstöðu.

    • Frétt akureyri.net frá 2023 þar sem sagt er frá öllum verkþáttum framkvæmdarinnar:

Keppnisvöllur, stúka og félagsaðstaða fyrir 2,6 milljarða

Myndir: Skapti Hallgrímsson