Fara í efni
Fréttir

Framkvæmdastjóri Þórs tekinn á teppið

Félagssvæði Þórs í Glerárhverfi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Félagssvæði Þórs í Glerárhverfi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Reimar Helgason, framkvæmdastjóri íþróttafélagsins Þórs, var tekinn á teppið af forráðamönnum íþróttamála á Akureyri vegna ummæla sem höfð voru eftir honum í Fréttablaðinu í síðustu viku. Reimar greindi frá þessu í viðtali í Ríkisútvarpinu í morgun.

Reimar og Siguróli Magni Sigurðsson, íþróttafulltrúi KA, ræddu um íþróttaaðstöðu á Akureyri við Óðin Svan Óðinsson, fréttamann, á Morgunvaktinni á Rás 1. Þar bar ýmislegt á góma en mikla athygli vakti á dögunum þegar fyrsti heimaleikur KA í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni, fór fram á Dalvík og KA-menn leika þar aftur á föstudaginn. Á Dalvík er frábær gervigrasvöllur af bestu gerð, en Akureyrarvöllur (Greifavöllurinn) er í afar slæmu ástandi og hefur reyndar þótt mjög lélegur undanfarin í ár.

Þórsarar afar ósáttir

Siguróli og Reimar voru sammála um að Akureyri hefði að ýmsu leyti dragist aftur úr höfuðborgarsvæðinu varðandi aðstöðu. KA sárvantar nýjan keppnisvöll í knattspyrnu, eins og Siguróli orðaði það, og í vetur skrifuðu einmitt Akureyrarbær og KA undir viljayfirlýsingu um framtíðaruppbyggingu á KA-svæðinu. Þórsarar leggja í augnablikinu mikla áherslu á að íþróttahús verði byggt á félagssvæði Þórs, en knattspyrna er eina íþróttagreinin sem Þórsarar geta keppt í á eigin svæði; heimaleikir handbolta- og körfuboltaliða félagsins fara til að mynda fram í íþróttahöllinni uppi á Brekku.

Fyrir nokkrum misserum var lögð fram skýrsla þverpólitísks starfshóps um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar næstu 15 árin, KA-menn eru þar ofarlega á blaði og hæstánægðir en Þórsarar hreint ekki og sögðu sig frá þeirri vinnu sem fram átti að fara í kjölfar skýrslunnar. Reimar sagði í morgun að Þórsurum hefði verið „sýndur puttinn“ og óskiljanlegt að ekki skyldi hafa verið kafað dýpra í málin. Fulltrúar bæjarins hefðu sagt að ræða þyrfti við Þórsara en málið svo „keyrt í gegnum bæjarkerfið og samþykkt, og svo þegar maður fer að kalla eftir þessu samtali segja menn bara að verið sé að vinna eftir skýrslunni. Þannig að okkur finnst hafa verið komið aftan að okkur í vinnu við þessa skýrslu.“

Sérstakur fundur

Þegar þáttastjórnandi spurði hvort þeir væru bjartsýnir á að hlustað yrði á þá, sagðist Reimar þurfa að passa sig að nöldra ekki of mikið. Sagði blaðamann Fréttablaðsins hafa hringt í sig í síðustu viku og eftir að grein birtist í blaðinu hefði hann verið kallaður á teppið hjá forráðamönnum íþróttamála í bænum, „þar sem þeir voru ekki sammála eða ósáttir við hvernig ég setti fram hvernig væri verið að vinna skipulagsmálin og hvað við þyrftum. Mér fannst það mjög sérstakur fundur og ég verð aðeins að skjóta á Siguróla; mér fannst enn sérstakara þegar ég spurði hvað KA-menn segðu þegar þeir væru teknir á svona fund, því að ég líklega segi svona 5% af því sem þeir setja í loftið og gagnrýna, en þeir virðast ekki hafa verið boðaðir ennþá á svona fund.“

Félagssvæði Knattspyrnufélags Akureyrar á Brekkunni fyrir nokkrum árum. Þar er mikil uppbygging fyrirhuguð á næstu árum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.