Fara í efni
Fréttir

Nýliðinn á EM er með handboltann í blóðinu

Andri Már Rúnarsson – í Íþróttahöllinni á Akureyri í september árið 2005 og í leiknum gegn Ítalíu í Kristianstad á föstudaginn. Myndir: Skapti Hallgrímsson og Hafliði Breiðfjörð.

Andri Már Rúnarsson tekur nú þátt í fyrsta stórmótinu með landsliðinu í handbolta og lék í nokkrar mínútur í fyrsta leiknum, stórsigri á Ítalíu (39:26) á föstudaginn og gerði eitt mark eins og áður hefur komið fram. Hann skaut tvisvar á markið, í fyrra skiptið small boltinn í þverslánni en seinni tilraunin heppnaðist; boltinn söng netinu eftir þrumuskot utan af velli. Andri kom við sögu í blálokin í dag, þegar Ísland burstaði Pólland (31:23), skaut tvisvar á markið en náði ekki að skora.

Gæsahúð frá þjóðsöng til leiksloka

„Ég held að maður muni aldrei gleyma þessum leik, fyrsta markinu á stórmóti og allri þessari stemningu,“ sagði Andri eftir leikinn á föstudaginn. „Persónulega þá var gaman að koma inn á leikvöllinn, ná að skora og fagna svo með stuðningsmönnunum í leikslok í höllinni. Stemningin var einstök og frábært að vera hluti af þessu,“ sagði Andri Már við handbolta.is og bætti við: „Þetta var ein gæsahúð frá þjóðsöng og þangað til í lokin. Engu var líkara en maður væri á heimavelli. Orkan sem maður fær frá fólki og myndast innan liðsins er ólýsanleg við þessar aðstæður.“

Andri Már æfir sig á stuðningsmannatrommurnar nýorðinn þriggja ára, haustið 2005 fljótlega eftir að Rúnar faðir hans hóf að leika með Þór á ný. Mynd: Skapti Hallgrímsson

EM í Svíþjóð er frumraun Andra á stærsta sviðinu, hann mun varla spila mikið á mótinu en á framtíðina sannarlega fyrir sér. Andri, sem er 23 ára, var kjölfesta í landsliði 21 árs og yngri sem vann bronsverðlaun á heimsmeistaramótinu 2023. Hann er nú á mála hjá HC Erlangen og hefur staðið sig mjög vel í efstu deild í Þýskalandi í vetur.

Rúnar faðir hans var atvinnumaður í greininni í Þýskalandi og á Spáni í mörg ár og Andri var þriggja ára þegar fjölskyldan flutti heim til Akureyrar sumarið 2005 þegar Rúnar kom til Þórs á ný.

Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • Þetta er lið Real Grímsey á Pollamóti Þórs í fótbolta árið 2011.
  • Andri Már Rúnarsson er fjórði frá hægri í fremri röðinni, við hlið hans er Jóhann Geir Sævarsson handboltamaður í KA og lengst til hægri er Hulda Björg Hannesdóttir knattspyrnukona í Þór/KA og nýkjörin íþróttakona Þórs 2025.
  • Lengst til vinstri bláklæddur er sex ára KA-maður, Dagur Árni Heimisson hjá föður sínum Heimi Árnasyni. Dagur Árni, sem leikur nú með Val, hefur verið lykilmaður í yngri landsliðum Íslands undanfarin ár. Ekki kæmi á óvart þó þeir Heimir bættust í hóp feðga sem tekið hafa þátt í EM því Heimir var í leikmannahópnum á Evrópumótinu í Sviss árið 2006.
    _ _ _ _ _

Andri Snær fyrsti þjálfarinn

„Ég held að Andri hafi byrjað að æfa 2007 þegar hann var fimm ára, undir handleiðslu Andra Snæs og stóra bróður síns,“ sagði Rúnar faðir hans við akureyri.net. Þá tefldu KA og Þór fram sameiginlegu liði – Akureyri – og KA-maðurinn Andri Snær Stefánsson, einn leikmanna liðsins, þjálfaði yngstu strákana hjá Þór. Honum til aðstoðar var Sigtryggur Daði Rúnarsson, sem þá var 11 ára! Sigtryggur er nú leikmaður ÍBV og Andri Snær þjálfari meistaraflokks karla hjá KA sem kunnugt er.

Rúnar og fjölskylda fluttu frá Akureyri til Þýskalands á ný 2012 þegar hann var ráðinn þjálfari EHV Aue. Þar hélt Andri vitaskuld áfram að æfa handbolta og hélt sínu striki þegar fjölskyldan flutti heim aftur 2018. Hann hefur leikið með Stjörnunni, Fram og Haukum hér heima en í Þýskalandi lék hann fyrst í meistaraflokki með Stuttgart, síðan með Leipzig undir stjórn föður síns en samdi við Erlangen fyrir þetta keppnistímabil.

Andri Már lék fyrst með A-landsliðinu í mars á síðasta ári, gegn Grikkjum og hafði tekið þátt í fjórum landsleikjum áður en landsliðið var kallað saman fyrir EM. Leikirnir eru því orðnir átta; tveir æfingaleikir gegn Frökkum og nú tveir leikir á EM.

Andri Már Rúnarsson í fyrsta leik EM í Svíþjóð, gegn Ítalíu á föstudaginn. Mynd: handbolti.is/Hafliði Breiðfjörð