Fara í efni
Fréttir

Handbolti: Auðvelt hjá Val gegn KA/Þór

Landsliðsmarkvörðurinn Hafdís Renötudóttir reyndist KA/Þór erfið viðureignar. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Valsarar sigruðu KA/Þór örugglega, 31:16, í efstu deild kvenna í handknattleik á heimavelli sínum í gær. Þetta var lokaleikur 13. umferðar Olísdeildarinnar og sem fyrr eru Valur og ÍBV efst og jöfn í deildinni en KA/Þór er í 6. sæti.

Leikurinn fór reyndar rólega af stað og fyrsta mark leiksins kom ekki fyrr en næstum 6 mínútur voru liðnar af honum. Nokkurt jafnræði var með liðunum og þegar fyrri hálfleikur var liðlega hálfnaður var staðan jöfn, 6:6. En þá kom góður kafli hjá Val, þær skoruðu 5 mörk í röð og eftir það var ljóst hvert stefndi. Staðan í leikhléi var 15:8 fyrir Val.

Síðari hálfleikur þróaðist á svipaðan hátt og leikmönnum KA/Þórs gekk sérlega illa að eiga við Hafdísi Renötudóttur í Valsmarkinu. Hafdís endaði með rúmlega 55% markvörslu og varði m.a. bæði vítin sem KA/Þór fékk í leiknum. Bernasett Leiner í mark KA/Þórs  gerði sér reyndar lítið fyrir og varði bæði vítin sem Valur fékk í leiknum, þannig að markverðir liðanna vörðu öll víti sem dæmd voru!

Lokatölurnar 31:16 fyrir Val og næsti leikur KA/Þórs er gegn Fram í KA-heimilinu næstkomandi sunnudag.

Mörk KA/Þórs: Trude Blestrud Hakonsen 5, Tinna Valgerður Gísladóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Anna Petrovics 1, Lydía Gunnþórsdóttir 1, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1, Kristín A. Jóhannsdóttir 1, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 1, Herdís Eiríksdóttir 1.

Varin skot: Bernadett Leiner 9/2, Matea Lonac 3.

Mörk Vals: Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 6, Lovísa Thompson 5, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 5, Mariam Eradze 3, Elísa Elíasdóttir 3, Sara Lind Fróðadóttir 3, Hildur Björnsdóttir 2, Arna Karitas Eiríksdóttir 2, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1, Ágústa Rún Jónasdóttir 1.

Varin skot: Hafdís Renötudóttir 16/2, Elísabet Millý Elíasardóttir 0.

Staðan í deildinni

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz