Fara í efni
Fréttir

Fór holu í höggi í 86 ára afmælisferðinni

Akureyringurinn Svanberg Þórðarson verður 86 ára síðar í mánuðinum og er því að tilefni staddur í golfferð á Spáni ásamt sonum sínum. Svanberg gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á El Plantino vellinum við Alicante.

Svanberg náði draumahögginu á 7. braut sem er par 3 og 186 metra löng. Þetta er í fyrsta skipti sem hann fer holu í höggi.

Fljótlega eftir að Svanberg hætti að vinna við 67 ára aldurinn fór hann að spila golf og hefur verið iðinn við kolann síðan. „Sem gamall keppnismaður í skíðaíþróttum tók það hann ekki langan tíma að ná tökum á kylfunum,“ sagði Kristinn sonur Svanbergs við Akureyri.net í dag, ánægður með gamla manninn. 

Með afmælisbarninu í ferðinni eru synirnir Halldór, Þórður, Gunnar, Kristinn H. og Sigurjón M. Svanbergssynir.