Fara í efni
Fréttir

Fleiri hringir GA félaga á Jaðri en nokkru sinni

Félagar í Golfklúbbi Akureyrar léku mun fleiri hringi á Jaðarsvelli í sumar en nokkru sinni áður; alls 23.130 ef mótshringir eru taldir með, en 21.091 hringi utan móta.

„Það er mikið gleðiefni að GA félagar séu að spila fleiri golfhringi á sínum heimavelli og hefur fjölgun meðlima sitt að segja í þesusm tölum,“ segir á vef golfklúbbsins. „Þrátt fyrir aukningu í gestum og erlendum kylfingum finna GA félagar sér tíma á vellinum til að spila og er hægt að fullyrða að skipting Jaðarsvallar á golfbox í september og október í tvo 9 holu velli eykur einnig rástímaskráningu GA félaga.“

„Ef tekið er meðaltal yfir spilaða hringi á dag hjá GA félögum voru þeir rétt um 125 á dag miðað við 120 í fyrra, 111 árið 2021 og 108 árið 2020.“

Þá kemur fram að erlendir kylfingar hafi spilað alls 444 hringi að Jaðri í sumar. „Algjör sprenging“ segir á vef GA; mest höfðu erlendir gestir leikið 341 hringi að Jaðri (sumarið 2016) síðan talningar hófust 2014. 

Mikil þátttaka í mótum

„Fjöldi mótshringja í ár var á pari við árið á undan en alls voru 3962 mótshringir spilaðir í ár og er það svipað og árin 2014-2020, þar af voru 2039 (51,5%) hringir spilaðir af GA félögum og 1923 (48,5%) af öðrum kylfingum. Fullt var í Hjóna- og parakeppni Icelandair og GA eins og undanfarin ár sem og í Höldur/Askja Open. Þá voru 252 þátttakendur í Arctic Open mótið en uppselt var í mótið fyrir jólin 2022. Einnig voru 214 keppendur í Icewear bombunni en aldrei hafa fleiri golfarar tekið þátt í því móti. Alls hélt GA 10 golfmót með fleiri en 100 þátttakendum og fjögur mót með fleiri en 200 keppendum.“

Nánar hér á vef GA.