Fara í efni
Fréttir

Flokkun heimilisúrgangs breytist í sumar

Grenndargámarnir verða enn á sínum stað, en flokkun á plasti og pappír/pappa færist til heimilanna. Mynd: Akureyrarbær

Í sumar innleiðir Akureyrarbær næstu skref í flokkun úrgangs. Frá maí til september verður tunnum íbúa skipt út eftir ákveðnu kerfi. Þá koma tvær tvískiptar tunnur, þar sem íbúar flokka blandaðan úrgang, matarleifar, plastumbúðir og pappír og pappa.

Á vef Akureyrarbæjar er sagt frá. Byrjað verður nyrst í bænum og verður unnið til suðurs. Reiknað er með að tunnum í Þorpinu verði skipt út í maí og júní en í öðrum hverfum í ágúst og september. Tunnunum verður skipt út samhliða sorphirðu.

Mikilvægur þáttur í bættri flokkun er að draga sem allra mest úr urðun úrgangs en því miður verður óhjákvæmilegt að safna áfram blönduðum úrgangi til urðunar, segir í fréttinni. Með þetta í huga er mikilvægt að flokka matarleifar, pappír og plast í rétt ílát og ekki síður að fara með allan tilfallandi umframúrgang í grenndargáma og á gámasvæði og flokka þar í rétt ílát. Sé þetta vel gert mun það draga verulega úr magni blandaðs úrgangs og þannig draga úr urðun.

Ný lög um hringrásarhagkerfi tóku gildi árið 2023 á Íslandi, þar sem sveitarfélögum er gert að safna fjórum úrgangsflokkum við heimili í þéttbýli: Pappír, plastumbúðum, matarleifum og blönduðum úrgangi. Það sem ekki er hægt að flokka í fjórflokkunartunnurnar fer áfram í grenndargámana sem verða á sínum stað.