Fara í efni
Fréttir

Erfitt að koma afurðum til kaupenda í Úkraínu

Frá landamærum Póllands og Úkraínu, þar sem röð flutningabíla er sögð um 50 kílómetra löng.

Margra kílómetra löng röð flutningabíla hefur verið við landamæri Póllands og hinnar stríðs hrjáðu Úkraínu undanfarnar vikur vegna aðgerða að undirlagi pólskra bílstjóra. Í röðinni eru m.a. um 50 bílar með um 1.000 tonn af sjávarafurðum frá Ice Fresh Seafood til kaupenda í Úkraínu . Þetta kemur fram á vef Samherja.

Áætlað er að röðin hafi síðustu daga verið um 50 kílómetra löng og bílarnir í röðinni séu hátt í 3.000. Ice Fresh Seafood selur afurðir Samherja, Síldarvinnslunnar og fleiri sjávarútvegsfyrirtækja.

Jóhannes Már Jóhannesson sölustjóri hjá Ice Fresh Seafood.

Verð á flutningum margfaldast

Jóhannes Már Jóhannesson sölustjóri hjá Ice Fresh Seafood segir ástandið mjög svo bagalegt og ómögulegt að segja til um framvindu mála.

„Staðan í þessu máli er á margan hátt flókin og auk þess pólitísk, þar sem ný ríkisstjórn er að taka við völdum í Póllandi. Þegar svona ástand skapast hækkar verð á flutningum upp úr öllu valdi, kostnaðurinn hefur líklega fimmfaldast síðan þetta ástand skapaðist við landamærin.“

Gríðarleg verðmæti í húfi

„Úkraína er stærsta markaðssvæði okkar fyrir uppsjávarafurðirnar síld, loðnu og makríl. Innrás Rússa í Úkraínu gjörbreytti öllum aðstæðum varðandi sölu og afhendingu afurða þar, hafnir við Svartahaf lokuðust og því ekki hægt að senda flutningaskip þangað eins og áður,“ segir Jóhannes Már.

„Þessi staða við landamærin bitnar auðvitað fyrst og fremst á fólkinu í Úkraínu, þannig að maður vonar sannarlega að biðraðirnar verði úr sögunni sem fyrst. Við erum í þéttu og góðu sambandi við viðskiptavini okkar í Úkraínu, sem hafa auðvitað miklar áhyggjur af ástandinu. Það eru gríðarleg verðmæti í húfi, ég býst við að matvæli séu í stórum hluta þessarar fimmtíu kílómetra löngu biðraðar,“ segir Jóhannes Már Jóhannesson.