Fara í efni
Fréttir

Enn einn læknir hættir á heilsugæslustöðinni

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Arngrímur Vilhjálmsson heimilislæknir hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) á Akureyri hefur sagt upp störfum. Hann er þriðji læknirinn á heilsugæslustöð bæjarins sem hverfur á braut á næstunni og óvíst er með þann fjórða. Ástæða uppsagnar Arngríms er óánægja með álag og framkvæmdastjórn stofnunarinnar.

Báðum yfirlæknum HSN á Akureyri var sagt upp í október vegna skipulagsbreytinga eins og Akureyri.net greindi frá. Mikil óánægja var með þá ákvörðun meðal starfsmanna stofnunarinnar.

Annar yfirlæknanna, Jón Torfi Halldórsson, hefur sótt um starf yfirlæknis á ný en ekki er ljóst hvort hann verður ráðinn. Hinn, Valur Helgi Kristinsson, hefur ráðið sig til Heilsuverndar, sem rekur hjúkrunarheimilin tvö á Akureyri fyrir ríkið og stefnir að því að koma á fót einkarekinni heilsugæslustöð í bænum. Guðrún Dóra Clarke, heimilislæknir hjá HSN á Akureyri, hefur einnig sagt upp og ráðið sig til Heilsuverndar.

Uppsagnarfrestur Arngríms Vilhjálmssonar er þrír mánuðir og starfar hann því á HSN út febrúar. Arngrímur kveðst ekki kominn með annað starf.

„Óánægja með álag og framkvæmdastjórn HSN. Þetta síðasta útspil þeirra með uppsagnir yfirlækna var bara síðasta hálmstráið,“ segir Arngrímur við Akureyri.net, spurður um ástæðu þess að hann sagði upp.

Arngrímur byrjaði á HSN sumarið 2016 þegar hann var í sérnámi í heimilislækningum. Hann útskrifaðist sem sérfræðingur í heimilislækningum árið 2021. Áður hafði hann unnið á Sjúkrahúsinu á Akureyri í tæp 2 ár.